Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Rússar ræða við fulltrúa NATO í dag

epa09679006 US Deputy Secretary of State Wendy Sherman reacts during the PSC Political Security Committee meeting with Ambassador, Chair of the Political and Security Committee, at the EU headquarters in Brussels, Belgium, 11 January 2022.  EPA-EFE/JOHN THYS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Fundur sendinefnda Bandaríkjanna og Rússlands á mánudag vegna Úkraínumálsins skilaði þeirri niðurstöðu einni að halda skuli viðræðum áfram. Þeim verður því fram haldið í dag í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel, höfuðborg Belgíu.

Formaður bandarísku sendinefndarinnar, Wendy Sherman aðstoðarutanríkisráðherra upplýsti Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra bandalagsins og sendifulltrúa aðildarríkjanna um niðurstöður fundarins með Sergei Ryabkov aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands.

Hún sagði hann ekki hafa gefið neitt það til kynna sem drægi úr óttanum við innrás í Úkraínu, né hafi hann skýrt fjölmennan liðsafnað Rússa við landamæri ríkjanna.

Rússar krefjast þess að Úkraínu verði ekki veitt aðild að Atlantshafsbandalaginu og að Bandaríkin fjölgi ekki herstöðvum í þeim ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum.

Alexander Grushko, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands og aðalsamningamaður þeirra gagnvart NATO segir að ekki verði slegið af þeim kröfum og skýrra svara krafist.

Bandalagsríkin leggja áherslu á að það sé þeirra að ákveða hverjum verði veitt innganga auk þess sem þungum efnahagsrefsingum er hótað láti Rússar til skarar skríða gegn Úkraínu.