Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Quebec tekur upp sérstakan skatt á óbólusetta

12.01.2022 - 01:55
epa09677293 A nurse prepares a syringe with a dose of the vaccine against Covid-19, at a vaccination center in Santiago, Chile, 10 January 2022. On 10 January, Chile becomes the second country in the world after Israel to begin applying the fourth dose of the vaccine against Covid-19, at a time when the Omicron variant and the high mobility of the Christmas holidays have triggered infections.  EPA-EFE/Alberto Valdes
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Stjórnvöld í Quebec-fylki í Kanada hyggjast leggja sérstakan skatt á fólk sem ekki hefur þegið bólusetningu gegn covid. Faraldurinn fer mikinn þar í landi en omíkron-afbrigðið er ráðandi þegar kemur að nýjum smitum.

Francois Legault forsætisráðherra fylkisins segir unnið að leið til þess að allir fullorðnir sem hafni bólusetningum leggi sérstaklega til heilbrigðiskerfisins. Hann segir það fólk leggja þunga fjárhagsbyrði á alla íbúa Quebec.

Um það bil tíu af hundraði Quebec-búa hafa ekki verið bólusett og Legault segir þann hóp ekki mega skaða hin 90 prósentin. Á blaðamannafundi sagði hann að helmingur allra sjúklinga á gjörgæsludeildum væri óbólusett fólk, sem væri átakanleg staða.

Að sögn Legaults er ætlunin að nýi heilsuskatturinn nemi umtalsverðri fjárhæð en að hann taki ekki til þeirra sem ekki geta þegið bólusetningu af læknisfræðilegum ástæðum. Alríkisstjórnin í Kanada hefur rætt þann möguleika að svipta óbólusetta atvinnuleysisbótum sínum. 

Um áramót ákváðu stjórnvöld meðal annars að banna einkasamkvæmi og setja á útgöngubann að næturlagi. Nýlega var sömuleiðis tilkynnt að verslanir sem ekki selja brýnustu nauðsynjar verði óaðgengilegar óbólusettum.

Stjórnarandstaðan í Quebec er mótfallin skattlagningunni og segir upptöku sérstaks heilsuskatts á óbólusetta verða til að auka á sundrungu meðal íbúa fylkisins. 

Þótt Quebec verði fyrst til skattleggja óbólusetta hefur víða verið gripið til aðgerða á borð við skyldubólusetningu og kröfu um framvísun bólusetningarvottorðs.