Óbólusettir sjúklingar flestir kosið að vera það

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
„Mín reynsla af þeim sem hafa lagst inn óbólusettir eru einstaklingar sem hafa kosið að vera óbólusettir. Ekki vegna þess að þeir hafi fengið leiðbeiningar um það frá lækni að láta ekki bólusetja.“ Þetta sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir COVID-göngudeildar Landspítalans á fundi með velferðarnefnd Alþingis í gær. Þorri þeirra sem stæði höllum fæti gagnvart bólusetningum vegna annarra veikinda og meðferðar væru bólusettir.

 

Már og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, voru gestir á tveggja klukkustunda löngum fundi velferðarnefndar Alþingis í gær.  Farið var yfir víðan völl og meðal annars spurt um þá sjúklinga sem ekki væru bólusettir og hvort kannað hefði hver ástæðan fyrir því væri.

Umræðan um bólusetta og óbólusetta hefur verið mjög hávær víða í Evrópu eftir að omíkron-afbrigðið fór að breiðast út á leifturhraða. Sum ríki hafa gripið til mjög harðra aðgerða gagnvart óbólusettum, til að mynda Frakkland, Austurríki og síðast Ítalía þar sem þessum hópi er kennt um neyðarástandið í heilbrigðiskerfinu.  

Farsóttanefnd Landspítalans sendi fyrir áramót frá sér tilkynningu þar sem áhyggjum var lýst af óbólusettum. Þeir sem hefðu valið að láta ekki bólusetja sig voru hvattir til að gera það sem fyrst. Í dag eru 45 sjúklingar á Landspítalanum með COVID-19 og þeir eru langflestir búnir að fá einn skammt af bóluefni. Hlutfallið snýst hins vegar við á gjörgæsludeildinni þar sem veikustu sjúklingarnir liggja. Af sjö sem liggja þar eru fimm óbólusettir.

Már sagði að það væri mjög útbreidd notkun á lyfjum sem drægu úr getu líkamans til að mynda mótefni. Þetta væru sjúkdómar eins og MS og eitlakrabbamein. 

Það hefði því þurft að sæta lagi að bólusetja  fólk þegar áhrifa þessara lyfja gætti sem minnst og þeir hefðu verið í stöðugu sambandi við sérfræðilækna þeirra. „Þorri þeirra sem standa höllum fæti gagnvart bólusetningum vegna annarra veikinda og meðferðar eru bólusettir,.“  

Hann sagði það reynslu sína af þeim óbólusettu sjúklingum sem hefðu þurft að leggjast inn á sjúkrahús að þeir hefðu sjálfir kosið að vera ekki bólusettir en ekki vegna þess að læknir hefði ráðlagt þeim að láta ekki bólusetja sig. Þessi gögn hefðu samt ekki verið tekið saman með skipulögðum hætti og væntanlega þyrfti leyfi frá Persónuvernd til þess.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði það vera á mjög gráu svæði að afla slíkra upplýsinga. Þetta gæti verið fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem hefði sjálft kosið að fara ekki í bólusetningu.  Að hans mati skipti það ekki höfuðmáli af hverju fólk væri ekki bólusett . Það sem skipti máli væri að halda áfram að hvetja alla til að fara í bólusetningu.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV