Hætta á að hugtök femínískra hreyfinga verði bitlaus

Mynd: EPA / EPA

Hætta á að hugtök femínískra hreyfinga verði bitlaus

12.01.2022 - 14:41

Höfundar

„Maður heyrir fræga karla mála sig sem fórnarlömb umræðunnar,“ segir Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, sem rannsakað hefur orðaforða metoo-byltingarinnar. Hugtökin sem verða til innan innan femíniskra hreyfinga geta orðið grundvöllur breytinga, tól til að tala um óréttlæti og afhjúpa það, en hætta er á að þau verði bitlaus og þeim snúið upp í andhverfu sína.

Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur rannsakað ýmsa anga femínískrar baráttu. Síðastliðið sumar birti hún, ásamt Gyðu Margréti Pétursdóttur prófessor í kynjafræði, grein í fræðiritinu Journal of Gender studies, þar sem þær greindu 604 nafnlausar sögur úr íslensku metoo-byltingunni. Sögurnar voru frá konum í nokkrum atvinnugreinum, voru birtar 2017 og 2018 og snerust um kynferðislegt ofbeldi, áreitni eða öráreitni á vinnustað. Í greininni fjalla þær meðal annars um orðaforða byltingarinnar, hugtök sem hafa náð inn í meginstrauminn eins og orðið gaslýsing, en líka orð eins og male entitlement, sem lýsir því þegar karlmenn telja sig eiga rétt á hugsun og hegðun sem undirokar konur og ganga að forréttindum sínum vísum. Jafnframt orð eins og himpathy, sem þýtt hefur verið sem hannúð á íslensku, og lýsir því að frásagnir karla fái meiri samúð og séu teknar trúanlegri en það sem konur segja.

Í greininni vitna þær í femíníska fræðimanninn Cynthiu Enloe sem segir að orðaforðinn sem verður til innan femíniskra hreyfinga sé grundvöllurinn að breytingum, tól til að tala um óréttlæti og afhjúpa það.

„Hugtök eru verkfæri femínískra hreyfinga og þau virka eins og kastljós. Þau lýsa upp reynslu og atvik sem við höfum leitt hjá okkur,“ segir Annadís í Lestinni á Rás 1. „Hugtökin greina líka það sem kemur fram. Cynthia tekur hugtakið kynferðislega áreitni sem dæmi, hugtak sem við erum alltaf að glíma við. Það varð ekki hluti af almennri umræðu fyrr en á 8. áratug síðustu aldar og fyrir tíma þess sáum við bara dónakalla og aðgreind atvik sem við lentum í hér og þar, míkrósamskipti, þukl og dónabrandara, en við tengdum ekkert saman. En þegar þú ert komin með hugtakið kynferðislega áreitni þá ertu farin að benda á eitthvað mynstur og farin að tengja þessi atvik inn í stærri mynd og setja í samhengi við karlmiðaða samfélagsgerð. Þessi hugtök eru mjög nauðsynleg og við verðum að standa vörð um þau.“

Hugtökum snúið á haus

En hvað þýðir það að standa vörð um þessi hugtök? Merking orða er fljótandi og síbreytileg fyrirbæri. Falli hugtök femínismans í rangar hendur er mögulegt að snúa þeim upp  í andhverfu sína. Orðaforði baráttunnar getur því misst bitið þegar hann færist út í meginstrauminn.

Orð eins og gaslýsing, sem lýsir því þegar upplifun hópa og einstaklinga er afneitað og hún útskýrð í burtu, hafa verið gripin af hinum ýmsu hópum sem líkar illa að verða fyrir málefnalegri gagnrýni. Þannig verður til dæmis afneitunarsinnum í loftslagsmálum og fólki sem er mótfallið bólusetningu tíðrætt um þá meintu gaslýsingu sem það telur sig verða fyrir þegar ósannindi í máli þess eru hrakin. Auk þess notar það óspart orðið þöggun en myllumerkið #þöggun hlaut fyrst fylgi á samfélagsmiðlum 2015 í tengslum við Beauty Tips byltinguna svokölluðu. Þegar kemur að þolendum og gerendum, er stundum reynt að snúa hugtökunum á haus.

„Maður heyrir fræga karla, mála sig sem fórnarlömb umræðunnar, sem er líka angi af þessari gjaldfellingu,“ segir Annadís. „Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni núna, þar sem talað er um að „virða ekki mörk“ einhverra. Í rauninni, og þetta er ágætlega útskýrt á vefnum hjá Sjúkri ást, þá felur þetta í sér að fólk kemur sér saman um hvar mörkin eru. Það felur í sér traust og virðingu. Það þýðir þá líka að maður verður að setja sig í spor hinna. En ef þú ert að tala um að virða ekki mörk út frá því að óvart ganga inn á einhverja, sem eru að gera eitthvað prívat, þá ertu búinn að gjaldfella það hugtak.“

Þarna vísar Annadís í raunverulega notkun á orðasambandinu „að fara yfir mörk” sem birtist í yfirlýsingu Loga Bergmanns eftir að ung kona, Vítalía Lazareva, steig fram og sakaði fimm menn menn um að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi, Loga þar á meðal.

Annadís segir að notkun á við þessa, á orðasambandinu að fara yfir mörk, sé í ætt við svokallaðar efsökunarbeiðnir. „Ef þér sárnaði hegðun mín þá þykir mér það leitt,“ fremur en einfaldlega: „Hegðun mín særði þig og mér þykir það leitt.“ Orðalagið er þannig leið til að virðast taka ábyrgð, án þess að taka ábyrgð í raun. „Ef þeir ætla að spá í það hvernig þeir hafa farið yfir mörk einhverra, þá þurfa þeir að setja sig í spor hinna, og maður er ekkert endilega sannfærður um að þeim sé að takast það alltaf.“

Brestir í teflon-húðinni

Á árunum 2017 og 2018 tóku konur úr ýmsum stéttum sig saman í krafti fjöldans og nafnleysisins og greindu frá kynferðisbrotum. Gera má ráð fyrir að flestar konurnar séu í millistétt, vegna starfa þeirra, en sögur kvenna af erlendum uppruna skáru sig úr og vöktu sérstaka athygli. Engar sameiginlegar sögur birtust úr einu efsta lagi samfélagsins, frá konum úr fjármálakerfinu og viðskiptalífinu, sem þó þykir ein karllægasta stéttin og erfiðust viðureignar á femíniskum forsendum. En nú er svo komið að ung kona, af erlendum uppruna og utan viðskiptalífsins, hefur ýtt við stoðum þess. Mennirnir sem áður voru í vari í krafti stöðu sinnar og valda eru ekki svo öruggir lengur.

„Við Gyða köllum þetta teflon-karlana, þeir eru í stöðu þar sem þeir þykja hafa það mikið virði að það festist ekkert við þá, ávirðingarnar kastast af þeim og fólk er tilbúið að slá um þá skjaldborg. Menningin er sniðin að þeirra þörfum og þeim finnst þeir hafa tilkall til ýmislegs sem aðrir hafa ekki. Fólk virðist hafa verið tilbúið til að gútera það. En nú eru að koma brestir í þessa teflon-húð og ég vona að það verði þannig að þeir þurfi að hugsa sinn gang. Það sem við erum að kalla eftir er að þeir fari að rýna í sitt eigið atferli og reyni að breyta því þannig að það sé auðveldara að vinna með þeim og þeir séu ekki að áreita konurnar sem vinna í kringum þá.“

Heldur Annadís Gréta að þessi bylgja verði til þess að það verði greiðari leið fyrir konur innan fyrirtækja og stofnana að benda á vandamálin án þess að verða vandamáli?

„Ég vona það, en svo um leið, eins og Cynthia bendir á, þá er feðraveldið svo gott í að endurnýja sig sjálft. Ein leið til að endurnýja sig væri að taka hugtökin sem við erum að nota og endurskilgreina þau þannig að það henti þeim betur. En ef þessi hugtök eru tekin og notuð eins og til er ætlast þá kasta þau ljósi á feðraveldið og gera það gegnsætt. Ef okkur tekst að halda þeim dampi verða vonandi breytingar til góðs. Af því ég held að þetta séu ekki bara breytingar sem eru til góðs fyrir konur, heldur fyrir karla líka.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Önnudísi Grétu Rúdolfsdóttur í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Innlent

Ekki hægt að þegja af sér málin lengur

Innlent

Kallar eftir stórum og hröðum skrefum í þágu þolenda

Innlent

Erfitt að lesa í lagalega þýðingu tjákna

Jafnréttismál

Í leyfi hver af öðrum eftir ásakanir Vítalíu