Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gefur ekkert fyrir endurbætur á kísilverksmiðjunni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar er vonsvikinn með ákvörðun Skipulagsstofnunar að veita starfsleyfi fyrir fyrsta áfanga kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Hann gefur lítið fyrir fyrirhugaðar endurbætur og ætlar að gera allt sem hann getur til að koma í veg fyrir verksmiðjan fari aftur í gang.

 

Kísilverksmiðjan í Helguvík var starfrækt frá nóvember 2016 til september 2017 en Umhverfisstofnun stöðvaði reksturinn vegna lyktarmengunar og óþæginda sem rakin voru til óstöðugleika í rekstri ljósbogaofns í verksmiðjunni. Fyrirhugaðar eru endurbætur sem eiga að tryggja bætt loftgæði og minni lyktarmengun, meðal annars á að losa útblástur um háan skorstein til að dreifa útblástursefnum betur en áður. Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, bjóst við annarri niðurstöðu en að starfsleyfi yrði veitt að nýju.

„Ég átt mig ekki á því að það sé ekki reynt að snúa og leiðrétta þessi ósköp sem greinilega áttu sér stað þarna, “ segir Guðbrandur og bætir við að Reykjanesbær sé ekki stikkfrí í málinu.

„Bærinn seldi þessa lóð á sínum tíma. Þetta gerist á tímabilinu 2010 til 2014. Síðan koma fleiri aðilar að þessu eins Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun og síðan gerir ríkið fjárfestingasamninga og það virðast allir hafa gert þetta með lokuð augun,“ segir Guðbrandur.

Guðbrandur gefur ekki mikið fyrir fyrirhugaðar endurbætur. „Ég ætla ekki að segja að ég gefi ekki mikið fyrir þær, ég gef ekkert fyrir þær. Þarna er bara eitthvað orðalag um að það megi ætla og gera ráð fyrir að þetta verði svona. Þannig varð það líka upphaflega. Það að það eigi að brenna kolum hér svo tugum tonna skipti hér rétt fyrir utan sveitarfélagið okkar er ekki ásættanlegt og íbúar munu ekkert una því.“

Hann segir að allra leiða verði leitað til að koma í veg fyrir endurræsingu kísilverksmiðjunnar og biðlar til Arion banka sem á verksmiðjuna að endurskoða áformin.