Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Frönsk samtök segja blóðmerahald nauðsyn

12.01.2022 - 16:54
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Frönsk samtök um kynbætur kinda, kúa og geita segja efnið sem jafnan er unnið úr blóði fylfullra hryssna bráðnauðsynlegt. Þetta kemur fram í umsögn France Génétique Elevage til Alþingis um frumvarp sem Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, flytur um bann við blóðmerahaldi.

„Þar sem ekki er völ á öðru efni í stórum stíl vill FGE árétta að efnið er nauðsynlegt fyrir sæðingar hjá smærri jórturdýrum. Þessi aðferð er undirstaða farsællar ræktunar,“ segir í umsögninni.

Þar kemur fram að notkun efnisins sem unnið er úr blóðinu stuðli að hreinlæti, bættri ræktun dýra með eiginleika sem teljast ákjósanlegir og til þess að tryggja fjölbreytileika í erfðamengi stofnanna.

„Þess vegna styðjum við að blóði sé safnað en undir ströngu eftirliti og með velferð dýranna í forgangi, sérstaklega þeira hesta sem þörf er á til að framleiða efnið,“ segir enn fremur í umsögninni sem Laurent Journaux, framkvæmdastjóri FGE, undirritar.

Samtökin segja Frakka nú fjárfesta mikið í rannsóknum sem miða að bættum sæðingum en sú vinna taki langan tíma og muni ekki leiða til neinnar nothæfrar niðurstöðu á næstu árum. Því sé enn sem komið er þörf á þessu svonefnda eCG-hormóni.

Þórgnýr Einar Albertsson