Farsóttarhús nærri þolmörkum

12.01.2022 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Forstöðumaður farsóttarhúsa segir starfsemina nærri þolmörkun og að meira sé farið að bera á veikindum en í upphafi bylgjunnar. Rauði kross Íslands biðlar til þeirra sem mögulega eiga annan kost en að óska eftir vist á farsóttarhúsi að leita annað.

Gríðarlegt álag er á starfsfólki og sjálfboðaliðum Rauða krossins og unnið er að því að ráða fleiri til starfa en til stendur að opna sjötta farsóttarhúsið á höfuðborgarsvæðinu. Gylfi Þór Þorsteinsson sem er forstöðumaður farsóttarhúsa segir að þó herbergjum hafi verið fjölgað mikið að undanförnu bætist stöðugt á biðlistann vegna fjölda smita dag hvern. 

„Þannig að við erum í kapphlaupi við tímann að elta skottið á okkur að koma fólki inn og erum að reyna að flýta því eins og hægt er að opna annað hótel sem verður vonandi á næstu dögum,“ segir Gylfi.

Þrátt fyrir að einangrun sé orðin styttri en áður segir Gylfi þarfir þeirra sem hjá þeim séu vera æði misjafnar og því geti fylgt mikil vinna áður en fólk geti farið. Þar á meðal eru erlendir ferðamenn sem þurfi að útvega vottorð og hjálpa að finna flug þegar kemur að heimferð.

„En svo eru það líka hinir sem eru að sýna einkenni og jafnvel að veikjast og þá eru þeir hjá okkur lengur og það er aðeins farið að bera á því aftur að fólk er svona aðeins veikara en var í upphafi þessa ferils,“ segir Gylfi.

Vegna álags á covid-göngudeild þarf starfsfólk farsóttarhúsa að vera vel vakandi fyrir einkennum þeirra sem þar dvelja. Meðal annars erlendra ferðamanna sem er oft síður kunnugt um eftirlit göngudeildarinnar með þeim sem eru veikir. „Við þurfum að fylgjast með því líka og þá sjáum við að það eru einkenni, jafnvel hjá fólki sem að sem ekki hefður náðst að hafa samband við og þá er það í okkar verkahring að láta vita af því svo það sé hægt að fylgjast betur með þeim,“ segir Gylfi.