Óli Stef: „Það er eitthvað í loftinu“

Mynd: RÚV / RÚV

Óli Stef: „Það er eitthvað í loftinu“

11.01.2022 - 16:35
Ólafur Stefánsson, fyrrum landsliðsfyrirliði í handbolta, verður sérfræðingur í EM stofu RÚV á meðan Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu stendur. Óli segist finna að eitthvað sé í loftinu þessa dagana.

Logi Geirsson verður með Óli í EM stofunni sem Kristjana Arnarsdóttir stýrir. „Ég held að við verðum bara góðir saman þarna með Kristjönu og við ætlum bara að gera þetta mjög vel og vera skýrir og peppandi.“

Eins og margir hafa minnst á þá var gengi liðsins á HM fyrir ári síðan ekki upp á marga fiska og Óli segist finna að liðið vilji meira núna. „Þá þýðir það náttúrulega augljóslega að byrja á því að komast upp úr riðlinum og það væri frábært ef þeim tækist að taka stig með,“ bætir hann við. Með Íslandi í riðli eru Portúgalar, Hollendingar og heimamenn Ungverja sem gætu orðið erfiðir viðureignar. 

Óli nefnir leikmenn á borð við Ómar Inga Magnússon, Bjarka Má Elísson og Viggó Kristjánsson sem hafa allir verið að gera það gott og skora mikið í þýsku úrvalsdeildinni. Hann telur ákveðna pressu vera á þeim að fylgja eftir því góða gengi með góðri frammistöðu með landsliðinu.

„Menn eru að skora mikið þarna úti í bestu deildinni þannig augljóslega þurfum við að setja þá kröfu að þeir geri slíkt hið sama þegar þeir klæðast bláa búningnum“

Fyrsti leikur Íslands er gegn Portúgal á föstudag, 14. janúar. Leikurinn hefst klukkan 19:25 en upphitun hefst í EM stofunni 19:15. Svo verður að sjálfsögðu rýnt nánar í leikinn að honum loknum.

Tengdar fréttir

Handbolti

Ólafur Stefánsson í EM stofunni með Kristjönu og Loga