Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mikil og sorgleg saga stolinnar listar

Mynd: EPA / EPA

Mikil og sorgleg saga stolinnar listar

11.01.2022 - 14:03

Höfundar

Fólk grét í salnum þegar grísk-íslenska heimildarmyndin Stolin list var sýnd á kvikmyndahátíð í Grikklandi. „Fólk var grátandi, það var rosalega reitt og það voru miklar tilfinningar í salnum.“

Heimildarþættirnir Stolin list, eftir Þorkel S. Harðarson og Örn Marinó Arnarson, sem sýndir eru á RÚV þessa dagana fjalla um hverjir eru réttmætir eigendur menningarlegra listmuna, en stór hluti menningararfs margra fyrrum nýlenduþjóða er til sýnis á söfnum fyrri nýlenduherra. Mörg landanna hafa sóst eftir að endurheimta minjarnar en í flestum tilvikum krefst það áralangrar baráttu líkt og við þekkjum úr okkar eigin sögu, í tilfelli handritanna. Þættirnir eru unnir upp úr heimildarmynd með sama nafni, sem frumsýnd var á Skjaldborg 2019. 

Rætt var við höfundana, þá Þorkel og Örn Marinó, í Víðsjá á Rás 1. Þeir hafa ólíka sögu að segja um það hvernig verkefnið varð til. Í grunninn spratt það þó upp af tveimur menningarminjum sem varðveittar eru í Berlín í Þýskalandi. Annars vegar meira en þrjú þúsund ára gamalli brjósmynd af Nefertiti og hins vegar Ishtar-hliðið, sem var eitt af borgarhliðum Babýlon en var tekið í sundur og smyglað úr landi af þýskum fornleifafræðingum. „Í  leiðinni var annað hlið tekið, sem er miklu stærra og það er búið að vera í kössum í 100 ár vegna þess að þeir hafa ekki aðstöðu til að sýna það, vegna þess að það er svo stórt. En þeir tóku það samt. Það fannst mér svolítið helluð afstaða: Við ætlum að taka þetta og eiga, en við ætlum ekki að sýna þetta,“ segir Þorkell.

Heimildarþættirnir Stolin list, eftir Þorkel S. Harðarson og Örn Marinó Arnarson, sem sýndir eru á RÚV þessa dagana fjalla um hverjir eru réttmætir eigendur menningarlegra listmuna, en stór hluti menningararfs margra fyrrum nýlenduþjóða er til sýnis á söfnum fyrri nýlenduherra. Mörg landanna hafa sóst eftir að endurheimta minjarnar en í flestum tilvikum krefst það áralangrar baráttu líkt og við þekkjum úr okkar eigin sögu, í tilfelli handritanna. Þættirnir eru unnir upp úr heimildarmynd með sama nafni, sem frumsýnd var á skjaldborg 2019.
 Mynd: Víðsjá - RÚV
Örn Marinó Arnarson og Þorkell S. Harðarson.

Á sama tíma og hugmyndin hóf að gerjast voru fluttar fréttir af eyðileggingunni í Sýrlandi, þar sem borgarastyrjöld hefur ríkt síðan 2011. „Maður sá að það var verið að eyðileggja fornminjar þar, vinstri og hægri, af Ísis-liðum og öðrum, svo var fólk leitandi að fornminjum, og stela til þess að lifa af. Við gátum þá lagt spilin á borðið og mótað sögu úr þessu.“

Þegar þræðirnir voru orðnir nógu margir sáu þeir að þeir höfðu góðan efnivið í höndum. „Þetta voru eins og lækir sem renna niður fjallshlíðar og á endanum verður þetta að fljóti,“ segir Þorkell. „Við náðum að tengja ansi margt, bæði það sem hefur gerst og svo það sem verið er að reyna að leysa, eins og grísku höggmyndirnar frá Parþenon sem eru að hluta til á British Museum og að hluta til í Grikklandi, og svo það sem var að gerast og er að gerast, þetta smygl, svartamarkaðsbrask og eyðilegging og svo hver er framtíðin. Þegar við vorum búnir að ná þessu, að fjalla ekki bara um liðna tíð, heldur vera með lifandi efni og spekúlasjónir um hvernig við getum leyst þetta. Þá vorum við komnir með hugmynd sem við gátum tekið alla leið.“

Ishtar Gate. Pergamon Berlin Museum
 Mynd: Rictor Norton - Wikimedia
Ishtar-hliðið í Berlín.

Marmarahöggmyndirnar frá Parþenon hafa verið þrætuepli stjórnmálamanna í tvær aldir, en þær voru teknar frá Grikklandi meðan landið var hluti af Ottómanveldinu. Síðustu áratugi hefur UNESCO reynt að miðla málum milli þjóðanna og haldnir hafa verið um 20 fundir á 40 árum án þess að sátt hafi náðst um málið.

„Alltaf eru Grikkirnir með miklar væntingar, um að nú komi þetta heim,“ segir Örn Marinó. „Þetta er mikið tilfinningamál í Grikklandi eins og gefur að skilja. Þegar við frumsýndum myndina á heimildarmyndahátíðinni í Þessalóniki grét fólk í salnum, þannig að þetta snertir Grikki mikið, skiljanlega, sérstaklega vegna þeirra efnahagslegu hremminga sem þeir hafa gengið í gegnum.“

„Fólk var grátandi, það var rosalega reitt og það voru miklar tilfinningar í salnum,“ bætir Þorkell við. „En svo fórum við út og þá var fólk að koma til okkar úti á götu og þakkaði okkur fyrir. Það kom til okkar gamall maður, hann var grátandi og í minningunni þá kraup hann á kné og kyssti hendur okkar. Þeir voru svo ánægðir með að einhverjir tveir risar, norðan úr íshafi hafi virkilega tekið tíma úr eigin lífi til að fjalla um þetta.“

Saga þessara þjóða speglast í okkar eigin sögu og áratugalangri baráttu um handritin. „Það er ákveðin lausn á því máli, sem er svakalega farsæl, auðvitað myndum við vilja hafa þetta allt saman hér en það er í það minnsta samvinna milli stofnana og unnið saman að rannsóknum og varðveislu.“

„Við erum fylgjandi því, að ef þú ert með aðstöðu til að taka á móti, þá ættirðu að fá þinn menningararf til baka. Ef þú hefur ekki aðstöðu til að gera það, þá er spurning um hvenær þú ættir að fá hann,“ segir Örn Marínó.

Þeir eru þeirrar skoðunar að þörf sé á samvinnu og sameiginlegri sýn um að koma menningarminjunum aftur á heimaslóðir. „Því þetta er grunnur fyrir fólkið sem býr þarna. Þessi heimshluti, sérstaklega Mið-Austurlöndin er oftast að miklu leyti í einhverju rugli. Ég held að við gætum afruglað þessi svæði með að leyfa fólkinu að hafa sín verðmæti á sínum stað.“

Þættirnir Stolin list eru sýndir á miðvikudögum á RÚV.

Tengdar fréttir

Evrópa

Johnson segir grískar minjar í eigu Breta

Stjórnmál

Stelur frá Louvre til að mótmæla nýlendustefnu