Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kjósa um sameiningu í lok mars - íbúafundir næstu daga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sölvi Andrason
Þrír íbúafundir hafa verið boðaðir í þessari viku til að kynna og ræða fyrirhugaða sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps. Áætlað er að kjósa um sameiningu sveitarfélaganna í lok mars.

Eftir samtal í nokkra mánuði ákváðu sveitarstjórnir Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps, í lok síðasta árs, að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Þrír íbúafundir í þessari viku eru ætlaðir til að kynna hvað er framundan og heyra sjónarmið íbúanna áður en lengra er haldið.

Vonast eftir góðri þátttöku í íbúafundum

Þorsteinn Ægir Egilsson, formaður samstarfsnefndar um sameiningu, væntir þess að íbúar noti nú tækifærið og mæti á fundina. „Það eru skiptar skoðanir um svona stór mál. Þetta er mál sem við erum að taka til framtíðar, stór ákvörðun. Það er líka stór ákvörðun að sameinast ekki, hvað gerist þá? Þannig að ég skynja skiptar skoðanir en held að menn séu almennt tilbúnir að koma og ræða málin.“

Þurfa að ljúka ýmsum verkefnum fyrir kosningar

Fyrirhugað er að kjósa um sameiningu í lok mars og Þorsteinn segir að þessir fundir séu mikilvægir fyrir sveitarstjórnirnar við að móta hugmyndir um sameinað sveitarfélag og þá sameiningartillögu sem kosið verður um. Ljúka þurfi tveimur umræðum í sveitarstjórnum um tillöguna og fleiri formsatriðum fyrir áætlaðan kjördag. „Þetta er í sjálfu sér knappur tími en við erum þó búin að taka góðan tíma í að fjalla um ýmis mál. Bæði í óformlegu viðræðunum og núna í formlegu viðræðunum. Þannig að við teljum að við eigum að geta náð þessu fyrir lok mars.“