Keppni sem eflir hugvit og ástríðu veitingamanna

11.01.2022 - 10:10
Mynd: Sölvi Andrason / Rúv
Keppni í matreiðslu og kokteilagerð fór fram á veitingahúsinu Strikinu á Akureyri. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi keppni er haldin og er henni ætlað að efla hugvit og ástríðu veitingamanna á Norðurlandi.

Vantaði vettvang 

Veitingamönnum á Akureyri þótti vanta vettvang fyrir fagfólk í veitingageiranum til að sýna færni sína og þekkingu. Hugmyndin að keppninni spratt fram í samtali nokkurra í veitingageiranum í lok nóvember og úr varð að efna til Arctic Challenge þar sem keppt er í tveimur greinum, matreiðslu og blöndun kokteila.

Árni Þór Árnason og Alexander Magnússon eru formenn Arctic Challenge segja mikilvægt fyrir veitingabransann að hafa þennan vettvang. Veitingafólki á Akureyri þótti þetta vanta og því var ákveðið að fara af stað með keppnina. „Við töluðum við veitingastaðina í kring og allir voru til í þetta. Og þarna fór boltinn að rúlla og ákveðið að hafa keppnina með þessu sniði,“ segir Árni Þór.

„Við höfum að geyma alls konar fagfólk út um allt landið. Það er náttúrulega frábært að stofna til svona keppni á mismunandi landshlutum þannig að það sé auðvelt fyrir einstaklinga að fara í þess konar keppni. Það geta kannski ekki allir farið suður til þess að keppa,“ segir Alexander.

Nýting á hráefni er mikilvæg

Dómararnir sjö eru fagmenn úr veitingageiranum. Dæmt er út frá bragði, vinnubrögðum og framsetningu. Árni segir að mikil áhersla sé lögð á nýtingu hráefnis. „Keppendur í eldhúsinu, hvernig nota þeir fiskinn, búa þeir kannski til soð úr beinunum, nota roðið, nota allt hráefnið upp á líka að bera virðingu fyrir öllu hráefninu.“

Í keppninni taka þátt átta matreiðslumenn og átta barþjónar frá mismunandi veitingastöðum. Smakkararnir taka litla prufu af hverjum rétti eða kokteil.

Tolli Sigurbjörnsson, einn dómari í kokteilakeppninni, segir að barþjónarnir þurfi að huga að ýmsu við kokteilagerðina. „Það er útlit og auðvitað bragð. Stemning og annað. Kokteilinn þarf að vera í góðu jafnvægi á milli sýru og ávaxta.“

Tolli segir ekki erfitt að halda einbeitingunni þrátt fyrir að smakka nokkra kokteila enda sé einungis smakkað örlítið magn af hverjum. „Þetta væri kannski orðið erfiðara ef þetta væru tuttugu keppendur eða fleiri, þá væri kannski bragðpallettan orðin svolítið menguð.“

Anna Þorbjörg Jónasdóttir