Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

IKEA í Bretlandi skerðir laun óbólusettra í sóttkví

11.01.2022 - 01:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Óbólusett starfsfólk IKEA á Bretlandi, sem neyðist til að taka sér frí til að fara í sóttkví vegna návistar eða umgengni við fólk sem greinist með COVID-19, fær ekki greidd full laun fyrir þá daga sem sóttkvín varir. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.

Um 10.000 manns starfa hjá IKEA á Bretlandi, en þar í landi gildir sú regla að fólk sem hefur verið tvíbólusett gegn COVID-19 þarf ekki að fara í einangrun eða sóttkví, þrátt fyrir að hafa komist í tæri við smitaðan einstakling. Óbólusett fólk sem rakningarteymi yfirvalda hefur samband við af sömu orsökum þarf hins vegar að fara í sóttkví, samkvæmt lögum.

Í tilkynningu IKEA á Bretlandi segir að hér eftir fái óbólusett starfsfólk einungis greidd lágmarkslaun, þann tíma sem það er í sóttkví, en þau eru 96 pund á viku, eða tæpar 17.000 krónur. Fullbólusett starfsfólk sem af einhverjum ástæðum neyðist til að fara í sóttkví fær hins vegar óskert laun og það gildir líka um starfsfólk sem neyðist til að sleppa bólusetningum af heilsufarsástæðum.