Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hetjan Magawa farin á vit feðra sinna

11.01.2022 - 17:11
Mynd með færslu
 Mynd: Apopo
Forðarottan Magawa kvaddi jarðlífið um síðustu helgi eftir hetjulega frammistöðu við leit að sprengjum í Kambódíu um árabil. Magawa var frá Tansaníu, en var á sínum tíma flutt til Kambódíu til að þefa uppi jarðsprengjur.

Rottan leitaði að sprengjum á 225 þúsund fermetrum lands og tókst að finna yfir hundrað jarðsprengjur og aðrar vítisvélar. Fyrir frammistöðuna var hún sæmd heiðursmerki bresku dýralæknagóðgerðastofnunarinnar PDSA árið 2020.

Í júní í fyrra settist Magawa í helgan stein og var hin sprækasta þar til fór að draga af henni í síðustu viku. Að sögn talsmanns belgísku góðgerðasamtakanna APOPO sem önnuðust þjálfun og umhirðu rottunnar hætti hún að sýna sama áhuga á mat og jafnan áður og svaf lengur, uns hún fékk hægt andlát um helgina. Hún varð átta ára.