Engin boð og bönn í matarvenjum í janúar

Mynd: Sagafilm / RÚV

Engin boð og bönn í matarvenjum í janúar

11.01.2022 - 13:34

Höfundar

Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands er afar áhugasöm um matarvenjur Íslendinga og þær leiðir sem hægt er að fara til að bæta þær. Hún vill meina að það sé hægt að nærast og njóta á sama tíma, og kynnir aðferðir til þess í þáttum sem nefnast einmitt Nærumst og njótum.

Í þáttunum Nærumst og njótum er fylgst með fjölbreyttum hópi fólks taka næringar- og matarvenjur sínar til gagngerrar endurskoðunar. Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði, kynnist heimilum þar sem býr fólk allt frá einni manneskju til stórrar fjölskyldu. Þátttakendur eru frá tíu vikna til sjötugs.

Anna tengdi við alla þátttakendur þó þeir væru ólíkir. „Mín upplifun var að ég þekkti sjálfa mig í einhverjum aðstæðum hjá öllum og það er svo skemmtilegt, því matur er rauður þráður í gegnum líf okkar,“ segir Anna í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. Hún segir að tilgangurinn með þáttunum sé vissulega að breyta og bæta, en að í matarvenjum skipti það miklu máli að njóta, en neita sér þó ekki um hluti. „Oft í janúar stendur fólk uppi og finnst það standa frammi fyrir boðum og bönnum sem við ætlum ekki að boða.“

Þátttakendur í þáttunum eru ólíkir enda þótti Önnu mikilvægt að sýna fjölbreytileikann, til dæmis hvað varðar stærð heimila. „Að borða einn er svo ólíkt því að að gera það í stóru fjölskyldunni og svo er þetta með aldurinn. Æviskeiðið hefur mikið að segja. Svo reyndum við að setja saman ótrúlega sterkan og skemmtilegan hóp með mismunandi viðfangsefni,“ segir hún.

Anna er sem fluga á vegg á heimilunum í sex vikur og segir að allir íbúar hafi breytt venjum sínum að þeim tíma loknum eftir naflaskoðun sem átti sér stað. Hún vonar að áhorfendur verði innblásnir geti tileinkað sér þær hugmyndir sem þar eru kynntar. „Það er það sem við vonumst til að áhorfendur upplifi með okkur, að þið spyrjið ykkur sjálf þessara spurninga sem við erum að spyrja þátttakendur og reynið að nýta verkfærin og hugmyndirnar sem við komum með, svo allir geti í raun og veru verið með í að læra að borða betur og njóta um leið.“

Það sé einmitt lykillinn, að njóta. „Það skiptir svo miklu máli, þetta þarf að vera gaman því eins og ég segi er ekkert hægt að horfa fram hjá því að matur er fyrirferðamikill í okkar lífi. Maður þarf að gefa sér tíma og rýna í þetta.“

Rætt var við Önnu Sigríði Ólafsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hér er hægt að horfa á fyrst þátt Nærumst og njótum í spilara RÚV.