Albert á förum frá AZ Alkmaar: „Tíminn vinnur með mér"

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Albert á förum frá AZ Alkmaar: „Tíminn vinnur með mér"

11.01.2022 - 19:32
Albert Guðmundsson, landsliðsmaður í fótbolta er á förum frá hollenska úrvalsdeildarliðinu AZ Alkmaar, hvort sem það verður nú í janúar eða í sumar. „Tíminn vinnur með mér í þessari stöðu," sagði Albert við RÚV í kvöld.

Yfirmaður knattspyrnumála hjá AZ, Max Huiberts, staðfesti yfirvofandi brotthvarf Alberts við fréttavef Noordhollands Dagblad. Þar segir að Albert vilji ekki framlengja samning sinn hjá AZ sem rennur út í sumar og að hann vilji reyna fyrir sér í öðru landi.

Skoska stórveldið Celtic ku samkvæmt fjölmiðlum þar í landi hafa mikinn áhuga á að fá Albert sem sjálfur er þó sagður helst vilja spila á Spáni. Fleiri lið eru þó einnig í spilunum. Fari Albert nú í janúar á meðan evrópski leikmannagugginn er opinn getur AZ fengið fjárhæð fyrir leikmanninn en annars fer hann á frjálsri sölu í sumar.

Útilokar ekki neitt

Albert var stuttorður þegar íþróttadeild náði sambandi við hann í kvöld og spurði hvort hann myndi ljúka tímabilinu hjá Alkmaar. „Ég ætla ekki útiloka neitt, tíminn vinnur með mér í þessari stöðu og ég og fólkið i kringum mig munum taka þessa ákvörðun í rólegheitunum.”

Albert gekk í raðir AZ Alkmaar frá PSV Eindhoven árið 2018. Hann er 24 ára og á að baki 29 A-landsleiki fyrir Ísland og hefur skorað í þeim 6 mörk.