Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonir um að toppi bylgjunnar kunni að vera náð

10.01.2022 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sér ekki mikið rými til að slaka á sóttvarnaaðgerðum eins og staðan er í covid-faraldrinum. Hann segir spurninguna snúa að því hvort að fara þurfi í harðar aðgerðir. Þórólfur segir að það geti ráðist í dag hvort að núverandi aðgerðir dugi til að sveigja smitkúrfuna niður á við. Hann segir svipaðan smitfjölda síðustu daga gefa vonir um að toppi bylgjunnar hafi hugsanlega verið náð.

Kristín Sigurðardóttir fréttamaður ræddi í morgun við Þórólf um gang faraldursins, gagnrýni á bólusetningar barna og næstu skref í faraldrinum. 

„Þetta [smitfjöldi] er nokkuð stöðugt þannig að þær aðgerðir sem hafa verið í gangi hafa haldið þessu nokkuð stöðugu. Við erum ekki að fara upp í veldisvöxt en auðvitað viljum við sjá þetta fara niður. Það er það sem málið snýst. Við erum með stöðugar innlagnir á spítalann, frá tveimur upp í sjö á dag. Það er ansi mikið,“ sagði Þórólfur. Hann segir að það sé alltaf til skoðunar að breyta viðbúnaðarstiginu en það sé aðallega í höndum ríkislögreglustjóra. Í gær kom fram að til skoðunar sé að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna. Það snýr þó fyrst og fremst að viðbragðsaðilum en ekki almenningi.

„Getum við gert eitthvað betur, skapað betri og meiri aðstöðu fyrir veika sjúklinga sem þurfa að leggjast inn. Ef það er ekki hægt þá er ekkert annað í stöðunni en að reyna að sveigja kúrfuna betur niður í samfélaginu og fækka samfélagslegum smitum,“ segir Þórólfur. „Þetta er það samspil sem við þurfum að horfa upp á þannig að ég sé ekki mikið rými til að slaka á. Spurningin er þessi hvort það þurfi að fara í harðar aðgerðir. Það er eitthvað sem við erum alltaf að skoða og velta fyrir okkur hvað þarf að gera.“

Vonir um að toppnum sé náð

Allra næstu dagar geta ráðið miklu um framhaldið. „Ég held að það ráðist svolítið af því hvað við sjáum í dag og á morgun. Þær aðgerðir sem eru í gangi núna hafa dugað til að halda faraldrinum í línulegum vexti, það er að segja að við erum að fá svipaðan fjölda á hverjum degi. Hvort við sjáum kúrfuna fara niður ræðst svolítið í dag og á morgun.“

„Við erum búin að vera með svipaðan fjölda í nokkra daga og það gefur vonir um að við séum kannski búin að ná toppi. Vonandi færum við þá að lækka, tölurnar eitthvað að minnka á næstunni,“ sagði Þórólfur. Hann bendir á að samkvæmt spálíkani frá Háskóla Íslands sé hægt að búast við að um þúsund tilfelli greinist dag hvern fram í seinni hluta mánaðarins. „Það er ansi mikið. Við þurfum bara að sjá hvað raunverulega gerist.“
 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dreifing smita.

Vill ekki draga úr skimunum

Þórólfur er ósammála Ragnari Frey Ingvarssyni, fyrrverandi yfirmanni göngudeildar covid, sem velti því upp í gær hvort að draga ætti úr skimunum og leggja meiri áherslu á að treysta starfsemi Landspítala.

„Mér líst nú ekkert vel á þessa tillögu. Ég held að yfirlæknir smitsjúkdómadeildar hafi svarað því mjög vel í fjölmiðlum í gær,“ sagði Þórólfur. „Ég held að þetta sé ekki hugsað alveg til enda. Ef við förum að fækka sýnatökum og greina færri þá getum við sett færri í einangrun og sóttkví sem þýðir bara að við fáum hraðari og meiri útbreiðslu. Það mun skila sér inn á spítalann í mikilli fjölgun og ég er ekki viss um að við höfum mannskap til að ráða við það.“

Telur valið um bólusetningu barna nokkuð augljóst

Hópur fólks hefur barist gegn bólusetningum barna gegn covid. Þórólfur sagði að það væri ekki nýtt, það væri viss hópur sem væri almennt á móti bólusetningum. Hávaðinn hefði þó kannski verið meiri núna en áður. „Við reynum bara að benda a kostina og rannsóknirnar sem liggja að baki bólusetningum hjá börnum, kostina við bólusetninguna borið saman við áhættuna. Það kemur bara í ljós að áhættan af covid er miklu miklu meiri hjá börnum en áhættan af bólusetningunni. Í raun og veru ætti það val að vera tiltölulega augljóst fyrir flestum þannig að við höldum bara áfram að bera þær staðreyndir á borð og sjáum hverju það skilar.“