Tindastóll með sigur í fyrsta leik eftir smithlé

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Tindastóll með sigur í fyrsta leik eftir smithlé

10.01.2022 - 21:25
Tindastóll er tveimur stigum frá 2. sæti úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir sigur á Þór á Akureyri í kvöld, 91-103. Leikurinn átti upphaflega að fara fram 28. desember en var frestað vegna kórónuveirusmita í leikmannahópi Tindastóls.

Þórsarar unnu sinn fyrsta sigur í deildinni á tímabilinu í síðasta leik og þeir voru yfir eftir fyrsta leikhluta í kvöld, 26-22 en Tindastóll var einu stigi yfir í hálfleik, 46-47. 

Jafnfræði var áfram með liðunum í þriðja leikhluta en Tindastólsmenn skoruðu 6 stig á síðustu 40 sekúndum leikhlutans og voru 8 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 68-76. Þessi kafli lagði grunninn að því sem á eftir kom. Þórsarar komust ekki mikið nær í lokaleikhlutanum og Tindastóll fagnaði 12 stiga sigri, 91-103.

Javon Anthony Bess átti stórleik hjá Tindastóli og skoraði 34 stig en það átti líka Taiwo Hassan Badmus sem skoraði 30 stig. Hjá Þór var Atle Bouna Black Ndiaye stigahæstur með 32 stig.

Tindastóll í toppbaráttunni

Tindastóll er í 5. sæti með 14 stig en Þór er enn á botni deildarinnar með 2 stig. Keflavík trónir á toppnum með 20 stig en næst koma Njarðvík og Þór Þorlákshöfn með 16 stig. Grindavík er í 4. sæti með 14 stig eins og Tindastóll.

Staðan í deildinni