Kemur ekki á óvart að leitað sé til dómstóla 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Félagsmálaráðherra segir eðlilegt að ágreiningur sé um hvort rétt sé að draga orlofstíma frá launafólki ef sóttkvíardagar lendi á slíkum dögum. Ekki komi á óvart að málið komi til kasta dómstóla. 

Hyggjast stefna ríki og sveitarfélögum  

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra segir það ekki koma sér á óvart að ágreiningur rísi um hvort draga eigi frá orlofsdaga af launafólki ef slíkir dagar fari í sóttkví.  Alþýðusamband Íslands hyggst stefna ríki og sveitarfélögum fyrir dóm til að að fá úr þessu skorið. 

Bæði rök með og á móti 

„Ég held að þetta mál verði að fá að eiga sinn farveg fyrir dómstólum ef að sú leið hefur verið valin, en þetta er auðvitað eitthvað sem að kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart að komi upp, að þetta komi til skoðunar, svo ég reyni nú að orða þetta almennt.

Það eru kannski bæði rök með og á móti í þessu. Það fer eftir því hvers eðlis sóttkvíin er. En ég ætla ekki að tjá mig frekar um þetta ef að málið er að fara fyrir dómstóla hvort sem er" segir Guðmundur Ingi. 

Eðlilegt að upp komi ágreiningur 

Finnst þér þetta sanngjarnt?

„Það fer kannski eftir því hvort þú ert í fríi þar sem þú ert búinn að draga þig algjörlega út úr vinnu. Eru möguleikar á því jafnvel að vinna og eiga þá í rauninni til frí á móti því. Það er margt sem að kemur þarna inn í, sem ég held að sé alveg eðlilegt að komi upp í svona" segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra.