Engin endanleg ákvörðun í máli Djokovic í dag

epa09668648 (FILE) Novak Djokovic of Serbia lifts the Norman Brooks Challenge Cup after winning his Men's singles finals match against Daniil Medvedev of Russia on Day 14 of the Australian Open Grand Slam tennis tournament at Melbourne Park in Melbourne, Australia, 21 February 2021 (re-isssued 05 January 2022).  Novak Djokovic was denied entry to Australia after his visa was refused amid a vaccine exemption row.  EPA-EFE/DAVE HUNT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP

Engin endanleg ákvörðun í máli Djokovic í dag

10.01.2022 - 10:24
Ástralska ríkið hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um mál serbneska tenniskappans Novak Djokovic og mun ekki gera fyrr en á morgun. Ráðherra innflytjendamála landsins getur enn vísað Djokovic úr landi, þrátt fyrir að hann hafi haft betur fyrir dómstólum í morgun.

Dómari í Viktoríufylki Ástralíu ákvað í morgun að vegabréfsáritun Djokovic væri gild og honum væri frjálst að yfirgefa sóttkvíarhótelið sem hann hefur dvalið á síðan á fimmtudag.

Málinu lauk þó ekki þar. Ráðherra innflytjendamála í Ástralíu hefur völd til að meina Djokovic um landvistarleyfi og senda hann úr landi. Samkvæmt BBC hafði ráðherrann fjóra tíma frá dómnum í morgun til að taka ákvörðun um að halda Djokovic. Ástralska dagblaðið Sydney Morning Herald greinir svo frá því að ráðherrann, Alex Hawke, muni ekki taka ákvörðun í dag (Ástralía er 11 klukkustundum á undan Íslandi í tíma). Klukkustundirnar fjórar áttu aðeins við um það að sleppa Djokovic af hótelinu, Hawke getur enn afturkallað landvistarleyfi hans hvenær sem er. Djokovic er því farinn af hótelinu en málið enn í óvissu. 

Nadal segir málið sirkús

Rafael Nadal, einn helsti keppinautur Djokovic undanfarinn áratug, segir mál Serbans vera sirkús. Í viðtali við spænska útvarpsstöð í dag sagði hann:

„Hvort sem ég er sammála Djokovic um málið skiptir ekki máli. Dómsvaldið hefur talað og sagt hann hafa rétt á að keppa á Opna ástralska meistaramótinu og það er sanngjarnasta niðurstaðan að hann geri það,“ sagði Nadal.

Opna ástralska meistaramótið hefst á mánudaginn í næstu viku. Djokovic er sigursælasti keppandi mótsins frá upphafi og hefur unnið það níu sinnum, þar af síðustu þrjú ár. Hann hefur alls unnið tuttugu risamót á ferli sínum, jafnmörg og Nadal og Svisslendingurinn Roger Federer.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Djokovic hafði betur gegn ástralska ríkinu

Tennis

Djokovic óbólusettur - Fékk aldrei loforð um inngöngu

Tennis

Djokovic ætlaði að fá undanþágu vegna nýlegrar sýkingar