Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Dagur gefur kost á sér í næstu kosningum

10.01.2022 - 08:20
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og oddviti Samfylkingarinnar, ætlar að gefa kost á sér í sveitastjórnarkosningunum í maí. Þetta upplýsti hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Dagur greindi frá því fyrir helgi að hann ætlaði að upplýsa um sín næstu skref þegar hann losnaði úr sóttkví eftir að eitt af börnunum hans greindist með COVID-19.

Dagur sagði að hann hefði þó kannski komist að annarri niðurstöðu síðasta vor. Hörð gagnrýni með auglýsingum auðmanna hefði beinst  persónulega að honum og svo skotárás fyrir utan heimili hans þar sem skotið var á bíl hans.   

Dagur sagði að skotárásin hefði haft meiri áhrif en hann hefði viljað viðurkenna í fyrstu.  Hann og eiginkona hans hefðu til að mynda verið búin að venja sig á að fara út að ganga á kvöldin en þau hefðu hætt því eftir þetta og farið að gera allskonar ráðstafanir. 

Dagur sagði ótrúlega marga spennandi hluti að gerast í borginni og hann hefði heyrt frá mjög mörgu fólki að undanförnu.

Hann vissi hvaðan fólk sem tengdist Samfylkingunni væri að koma og því læsi hann kannski meira í orð þeirra sem væru á jaðrinum og eiginlega ótengdir pólitík.

Þar hefði munað mest um orð manns á miðjum aldri  sem hefði sagt honum að hann gæti ekki hætt við hálfklárað verk. „Mér finnst ég reyndar vera meira en hálfnaður,“ sagði Dagur.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV