Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Minnst 19 fórust í eldi í fjölbýlishúsi í New York

09.01.2022 - 22:10
Emergency personnel work at the scene of a fatal fire at an apartment building in the Bronx on Sunday, Jan. 9, 2022, in New York. The majority of victims were suffering from severe smoke inhalation, FDNY Commissioner Daniel Nigro said. (AP Photo/Yuki Iwamura)
 Mynd: AP
Minnst 19 létust og tugir slösuðust í miklum eldsvoða í fjölbýlishúsi í New York borg í dag. New York Times og CNN greina frá því að meðal látinna séu níu börn. Óttast er að enn fleiri hafi farist. 63 slösuðust í brunanum að sögn Erics Adams, borgarstjóra í New York, sem segir eldsvoðann einn þann versta í borginni í manna minnum.

Yfir 200 slökkviliðsmenn voru kallaðir á vettvang í morgun þegar tilkynnt var um að eldurinn hefði kviknað á annarri og þriðju hæð í nítján hæða fjölbýlishúsi. Sjónarvottar greindu frá því að eldurinn hefði borist hratt um bygginguna og margir íbúar kallað á hjálp út um glugga íbúða sinni, þar sem þeir sátu fastir.

Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir