Fjölniskonur komnar á topp deildarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Fjölniskonur komnar á topp deildarinnar

09.01.2022 - 20:12
Fjölnir vann botnlið Breiðabliks í eina leik kvöldsins í úrvalsdeild kvenna í körfubolta. Með sigrinum eru Fjölniskonur komnar á toppinn, að minnsta kosti tímabundið en Njarðvík í öðru sætinu á tvo leiki til góða.

Það var fyrsti leikhlutinn sem lagði grunninn að sigri Fjölniskvenna en hann unnu þær 33-22. Hinir þrír leikhlutarnir voru mjög jafnir og nánast engu munaði á liðunum í þeim. Að endingu náði Fjölnir að sigla heim tíu stiga sigri, 91-81, og situr nú í efsta sæti deildarinnar með 20 stig eftir 13 leiki. Njarðvík er í öðru sæti með 18 stig eftir 11 leiki og Valskonur í því þriðja með 16 stig eftir 12 leiki. Blikakonur eru enn á botni deildarinnar með tvö stig eftir 11 leiki. 

Aliyah Daija Mazyck var atkvæðamest í liði Fjölnis með 40 stig, 14 fráköst og tvær stoðsendingar. Blikamegin voru það Telma Lind Ásgeirsdóttir og Anna Soffía Lárusdóttir sem skoruðu mest, 16 stig hvor.