Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fyrirskipar handtöku óbólusettra sem hundsa útgöngubann

A man receives a dose of Moderna's COVID-19 vaccine at the Makati Coliseum in Makati City, Philippines on Thursday, Jan. 6, 2022. Officials say they assume that local transmission of the highly contagious omicron variant is driving the current spike in cases. (AP Photo/Basilio Sepe)
Það er víðar en á Íslandi sem íþróttahallir eru notaðar til bólusetninga. Þessi mynd er tekin í Coliseum-höllinni í Makatí-borg á Filippseyjum á þrettándanum. Mynd: AP
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, vill að óbólusettir landsmenn á faraldsfæti verði fangelsaðir ef ekki dugar annað, því omíkron-afbrigði kórónuveirunnar fer nú með ógnarhraða um eyjarnar og smithlutfall er hvergi hærra en á Filippseyjum. Um fjörutíu prósent allra sýna sem tekin voru á Filippseyjum í gær reyndust jákvæð, eða 21.819 af 70.049. Hlutfallið hefur aldrei verið hærra og er átta sinnum hærra en þau fimm prósent sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin miðar við sem hættumörk.

Duterte gaf á fimmtudag út tilskipun um að  handtaka skuli alla óbólusetta sem staðnir eru að því að brjóta þær ströngu reglur um útgöngubann sem gilda á eyjunum og ætlað er að hamla útbreiðslu veirunnar.

Efasemdir eru uppi um lögmæti tilskipunarinnar, en þeim efasemdum sópar Duterte út af borðinu í krafti neyðarréttar. Gærdagurinn var þriðji dagurinn í röð sem met var slegið í hlutfalli jákvæðra sýna.

Sprenging í nýsmitum frá jólum

Nær þrjár milljónir hafa greinst með COVID-19 á Filippseyjum frá upphafi faraldursins. Smitum var tekið að fækka mjög í árslok og voru komin niður í nokkur hundruð á dag skömmu fyrir jól. Eftir hátíðarnar fór þeim að fjölga á ný og 1. janúar greindust 3.600 með veiruna. Síðan hefur þeim fjölgað hratt og voru sex sinnum fleiri í gær.

Mikill meirihluti smita greinist í höfuðborginni Manila, úthverfum hennar og nálægum borgum og bæjum. Innan við helmingur Filippseyinga er bólusettur, segir í frétt Al Jazeera.