Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tölvuárás og skipulagsleysi til vandræða í Brasilíu

07.01.2022 - 17:45
epa09090357 Medical staff works in the Intensive Care Unit (ICU) of the hospital of Clinicas, in Porto Alegre, Brazil, 21 March 2021 (Issued 22 March 2021). The Brazilian government asked to help the medical industry to find solutions to the shortage of supplies for the intubation of patients with Covid-19, a disease that already leaves nearly 300,000 dead in the country.  EPA-EFE/Marcelo Oliveira
Gjörgæsludeild í Porto Alegre í Brasilíu. Mynd: EPA-EFE - EFE
Gagnagíslataka og erfiðleikar við skimun hafa gert Brasilíumönnum afar erfitt að takast á við omíkron-afbrigðið og nýja bylgju kórónuveirufaraldursins. Þetta segir í frétt Reuters.

Illa gengur að komast að því hver raunveruleg útbreiðsla afbrigðisins er í landinu. Þetta þýðir meðal annars að erfiðara er fyrir heilbrigðiskerfið og yfirvöld að reyna að berjast gegn farsóttinni.

Engin heildræn stefna er í Brasilíu um fyrirkomulag skimana. Fjöldi landsmanna þarf að bíða í löngum röðum eftir því að komast að þannig að hægt og illa gengur að skima Brasilíumenn. 

Hlutfallslega eru skimanir mun færri í Brasilíu en í nágrannalöndunum þrátt fyrir að fleiri andlát vegna covid-19 hafi einungis verið skráð í tveimur löndum, Rússlandi og Bandaríkjunum. Síðustu sjö daga hafa 0,23 verið skimaðir af hverjum þúsund samanborið við 2,15 í Argentínu og 3,88 í Úrúgvæ.

Þar sem færri eru skimaðir en í grannríkjunum telja heilbrigðissérfræðingar að gögnin sem stjórnvöld eiga um útbreiðsluna séu of lítil. Vond staða varð svo verri í desember þegar tölvuþrjótar tóku þau gögn sem til eru í gagnagíslatöku.

„Kerfið var of lélegt til að byrja með og staðan versnaði til muna við árás hakkaranna. Við erum alveg á bólakafi,“ sagði Gonzalo Vecina, prófessor við háskólann í Sao Paulo.

Þrátt fyrir það er ljóst að mikil fjölgun smita hefur átt sér stað í Brasilíu síðustu vikur. Sjö daga meðaltal greindra smita hefur tuttugufaldast frá því í miðjum desember.

Þórgnýr Einar Albertsson