Mynd: Michael Reynolds - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.
Svar Trumps við Facebook og Twitter í sjónmáli
07.01.2022 - 01:32
Erlent · Fjölmiðlar · Donald Trump · Facebook · Samfélagsmiðlar · Truth Social · twitter · Norður Ameríka · Stjórnmál
Margboðuðum nýjum samfélagsmiðli fjölmiðlafyrirtækis Donalds Trumps, „Truth Social,“ verður hleypt af stokkunum 21. febrúar ef allt gengur eftir. Þetta má ráða af lista í smáforritaverslun Apple á Netinu, þar sem fram kemur að hægt verði að hlaða niður samnefndu smáforriti - eða appi - frá þeim degi. Truth Social á að hafa svipaða eiginleika og notkunarsvið og Facebook og álíka miðlar.
Forsetanum fyrrverandi hefur verið úthýst af Twitter og fleiri samfélagsmiðlum fyrir ítrekuð brot á reglum miðlanna um dreifingu falsfrétta, áróðurs og rangfærslna.
Trump hefur fordæmt þá ólögmætu þöggun sem hann telur sig vera beittan með þessum aðgerðum tæknirisanna að baki samfélagsmiðlunum. Sakar hann tæknirisana um að vinna markvisst gegn sér og skoðanasystkinum sínum á hægri væng bandarískra stjórnmála, og ætlar Truth Social að verða fýsilegur valkostur fyrir þennan þjóðfélagshóp.