Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ráðherra lækar færslu Loga sem lokar fyrir ummæli

07.01.2022 - 08:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson hefur lokað fyrir ummæli við færslu sem hann birti í gærkvöld þar sem hann sagðist saklaus af þeim sökum sem hefðu verið bornar á hann undanfarna daga. Meðal þeirra sem líkaði við færsluna var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og ráðherra vísinda og nýsköpunar.

Atburðarásin í gær var nokkuð hröð eftir að fréttir bárust af því að Ari Edwald, framkvæmdastjóri Ísey útflutnings, hefði stigið til hliðar að eigin ósk.

Ástæðan var sögð vera viðtal Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum Eigin konur við Vitaliu Lazarevu þar sem hún lýsti upplifun af kynferðislegu ofbeldi sem hún hefði sætt af hálfu þjóðþekktra manna. 

Í framhaldinu vék Hreggviður Jónssón úr stjórnum Veritas Capital, Þórður Már Jóhannesson hætti sem stjórnarformaður Festi og Arnar Grant fór í leyfi sem einkaþjálfari í World Class. Hreggviður sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði afar þungbært að heyra um reynslu Vitalíu. Hann harmaði að hafa ekki stigið út úr þessum aðstæðum.

Logi Bergmann, einn þekktasti fjölmiðlamaður landsins, tilkynnti síðan í útvarpsþætti sínum á K100 síðdegis í gær að hann væri á leiðinni í frí.

Logi tjáði sig opinberlega um ásakanirnar með færslu á Facebook í gærkvöld. Þar sagðist hann vera saklaus af þeim sökum sem á hann hefðu verið bornar undanfarna daga en viðurkenndi að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks. Hann lokaði síðar fyrir ummæli við færsluna. 

Fjöldi nafntogaðra Íslendinga hefur líkað við færslu Loga en meðal þeirra er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra.   Áslaug hefur talað fyrir því að bæta þurfi stöðu þolenda kynferðisofbeldis.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, vakti máls á þessu á Twitter-síðu sinni og fannst áhugavert að fjölmiðlamaðurinn hefði lokað fyrir athugasemdir um leið og fólk hefði spurt hvað „læk“ ráðherrans þýddi.  Hann merkti bæði Loga og Áslaugu í færslu sinni en Logi hefur nú lokað Twitter-reikningi sínum.