Njarðvík vann Þór og tyllti sér í annað sætið

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Njarðvík vann Þór og tyllti sér í annað sætið

07.01.2022 - 22:08
Einn leikur fór fram í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Þór Þorlákshöfn fékk þá Njarðvíkinga í heimsókn. Þórsarar gátu komið sér nær Keflvíkingum á toppnum með sigri en Njarðvíkingar tóku stigin tvö með sér heim og liðið er því með jafn mörg stig og Þórsarar í öðru sætinu.

Fyrsti leikhluti var jafn en Njarðvíkingar leiddu þó með naumum þremur stigum að honum loknum, 25-22. Gestirnir náðu að bæta í í fyrri hluta annars leikhluta en Þórsarar komu til baka og í hálfleik munaði aðeins tveimur stigum, 49-47 fyrir Njarðvíkingum. Þeim tókst hins vegar að slíta sig aðeins frá Þórsurum í þriðja og fjórða leikhluta og unnu að lokum nokkuð öruggan 17 stiga sigur 109-92. 

Nicolas Richotti var stigahæstur Njarðvíkinga með 28 stig og 3 fráköst. Glynn Watson skoraði mest Þórsara, 33 stig. Með sigrinum fara Njarðvíkingar upp fyrir Þórsara í annað sætið en bæði lið erum með 16 stig eftir 12 leiki. Keflvíkingar eru á toppnum með 20 stig.