Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gætu leitað til aðstandenda vegna manneklu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
200 starfsmenn velferðasviðs Reykjavíkurborgar eru ýmist í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19. Sviðsstjóri segist vonast til þess að ekki þurfi að óska liðsinnis aðstandenda, en það sé síðasta úrræðið ef ekki takist að manna heimaþjónustu.

Þeir 200 starfsmenn sem ekki gátu mætt til vinnu hjá velferðarsviði borgarinnar í dag, eru um 7% allra starfsmanna sviðsins.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri, segir þau meta stöðuna hvern dag og þá sé farið yfir hvort sé hægt að halda úti óbreyttri þjónustu. Síðustu daga hefur ítrekað þurft að kalla starfsfólk út á aukavaktir og hefur þegar þurft að skerða þjónustu þeirra sem fá heimilisþrif á vegum borgarinnar.

„Ekki hefur komið til þess að skerða þurfi þjónustu marga daga í röð, nema í einstaka tilvikum og þá til fólks sem fær eingöngu þrif. Þá hefur verið hringt í notendur þjónustunnar og þeim tilkynnt um stöðuna. Langflestir sýna stöðunni skilning“ segir Regína.

Starfsfólk fari í vinnusóttkví ef staðan þyngist

Sviðsstjóri segir að ef róðurinn þyngist frekar fari þau þá leið að hafa starfsfólk sem hafi orðið útsett fyrir smiti en sýni ekki einkenni í vinnu, í svokallaðri vinnusóttkví B. Allra síðasta úrræðið, ef ekki tekst að manna þjónustuna, verði svo að leita til aðstandenda og óska eftir aðstoð þeirra.

„Ekki hefur komið til þess að óska þurfi eftir liðsinni aðstandenda en það er að sjálfsögðu síðasta úrræðið náist ekki að manna þjónustuna“  segir Regína.