Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Gerendur geta ekki kennt frásögnum þolenda um“

06.01.2022 - 22:51
Mynd: RÚV / RÚV
„Einstaklingsmiðlun í gegnum samfélagsmiðla og hlaðvarpsþættir hafa brotið ísinn í allri umræðu um kynferðisbrotamál.“ Þetta segir prófessor í heimspeki við HÍ sem hefur rannsakað #metoo-byltinguna og slaufunarmenningu. Gerendur geti ekki kennt frásögnum þolenda um hvernig fyrir þeim er komið. Þeir þurfi fyrst og fremst að líta í eigin barm. Þar séu upptök vandans.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki við HÍ segir daginn í dag marka ákveðin þáttaskil í umræðu um kynferðisofbeldi eftir að áhrifamenn í viðskiptalífinu, einn þekktasti fjölmiðlamaður landsins og líkamsræktarfrömuður fóru í leyfi frá störfum sínum í dag eftir að kona greindi frá kynferðisbrotum í hlaðvarpsþætti. 

„Ég held að þetta hefði aldrei gerst fyrir einu, hvað þá tveimur, þremur, fjórum eða fimm árum.“

Umræðan hafi stigmagnast og náð nýju hámarki í dag. Fjölmiðlar hafi haft veður af málunum en ekki getað tekið á þeim af neinni festu fyrr en í dag eftir að yfirlýsingar bárust frá fyrirtækjum sem mannirnir starfa hjá stjórnum þeirra eða lögmönnum.

Einstaklingsmiðlun síðustu ára með tilkomu samfélagsmiðla og hlaðvarpsþátta spili þarna lykilhlutverk.

„Það hefur verið mjög öflugt starf í gangi á samfélagmiðlum og eins hjá Öfgum. Þar hafa verið mjög öflugar ungar konur sem nota samfélagsmiðlana mjög markvisst í baráttunni gegn kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi. Eins og þetta óopinbera podcast sem er ekki í vistun hjá neinum stórum fjölmiðli. Þessi þáttur Eddu Falak brýtur einhvern ís þannig að aðrir geta farið að fjalla um þetta mál.“

Eyja Margrét segir að bylgja hafi risið í vor í tenglsum við mál Ingós Veðurguðs og Sölva Tryggvasonar. Svo í sumar hafi mál knattspyrnumanna komið fram og umræða um þau staðið allt þar til þetta nýja mál kom fram og menn viku úr störfum sínum í dag. Mál frægs fólks rati í fjölmiðla, -en hafa verði í huga að málin séu því miður sennilegast mun fleiri sem tengist óþekktu fólki. Þau rati ekki í fjölmiðla.

„Auðvitað kemur það fyrir á alls konar venjulegum vinnustöðum að einhver er látinn fara út af einhverju svona máli en það bara ratar ekkert í fréttir og þá heyrum við ekkert af því og þá kannski finnst okkur eins og að það hafi ekki gerst. En þessir menn eru frægir og vinsælir. Orðspor þeirra er dýrmætt.“ 

Hún segir mjög  jákvætt að smám saman sé samfélagið farið að taka þolendum meira trúanlega og alvarlega sem sé lykilatriði í byltingunni.

„Það er ekkert gaman að skaða orðsporið sitt,  missa vinnuna eða atvinnutækifæri eða makan og fjölskylduna. En eru þeir þolendur einhvers ranglætis af hálfu annarra? Nei, þeir eru þolendur sinna eigin athafna. Þær afleiðingar sem þarna verða eru fyrst og fremst afleiðingar þess sem þeir sjálfir gerðu og við verðum að passa að fara ekki að kenna afhjúpunum þolenda þeirra um. Það að þolendurnir hafi sagt frá er ekki ástæða þeirra afleiðinga sem þeir verða  fyrir. Þeir hljóta að geta fyrst og fremst sjálfum sér um kennt.“