Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Flestir undirbúnir en trampólín engu að síður á flugi

06.01.2022 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitir sinntu um hundrað verkefnum vegna vonskuveðursins sem gekk yfir suðvestanvert landið í gærkvöld og í nótt. Um sjötíu þeirra voru á höfuðborgarsvæðinu. Mest var um foktjón en fyrsta útkall barst á ellefta tímanum í gærkvöld. Verkefnum fækkaði eftir því sem líða tók á nóttina og voru flestar sveitir komnar í hús um fjögurleytið.

Guðrún Katrín Jóhannsdóttir er ein þeirra sem sinnti útköllum á vegum Landsbjargar víðs vegar um höfuðborgarsvæðið í gærkvöld og nótt og furðar sig meðal annars á því að þurfa að bregðast við fljúgandi trampólíni í janúar.

„Þetta voru þessi hefðbundnu foktjón; klæðningar, þakplötur, gluggar, girðingar, fiskikör. Eitt trampólín meira að segja læddist þarna með og partýtjald. Þannig það var af ýmsu að taka,“ segir Guðrún.

Þið voruð væntanlega vel undirbúin, en var þetta meira en þið bjuggust við?

„Já og nei. Þetta var svolítið hverfaskipt. Við vorum mikið í Hafnarfirði og svokölluðum efri byggðum, þær eru alltaf vinsælar í rokinu. En verkefnin voru svona nokkuð hefðbundin. Maður er alltaf svolítið í vandamálalausnum þegar maður kemur að hverju verkefni fyrir sig. Að finna út úr því hvað maður getur notað, hvað er í bílnum og hvað er hægt að nota á staðnum til þess að leysa verkefnið og að sjálfsögðu valda ekki meira tjóni en orðið er.“

Það var búið að vara við hvelli og þú talar um trampólín og partýtjald. Finnst þér fólk hafa búið sig nægilega vel fyrir þetta?

„Flestir eru bara með sitt alveg á hreinu. Þetta eru svona einstaka verktakar sem ganga ekki alveg nógu vel frá hjá sér. Það er kannski lítið sem fólk getur gert í því ef kofar í görðum takast skyndilega á loft eða girðingar eða slíkt. En trampólín, það er kannski hægt að setja spurningarmerki við að vera með það uppi í janúar,“ segir Guðrún Katrín Jóhannsdóttir.