
Vonast til að Englendingar standist áhlaup omíkron
Johnson sagði góðar líkur vera á því að hann legði til áframhaldandi óbreytta beitingu áætlunar B á ríkisstjórnarfundi á morgun. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
„Það er hægt að halda skólum gangandi og fyrirtækjum opnum og við finnum leið til að lifa með veirunni,“ sagði Johnson á upplýsingafundi í dag og hét því að heilbrigðiskerfið yrði styrkt.
Hann sagðist ekki ætla að leggja til frekari aðgerðir en sagði að um 100 þúsund framlínustarfsmönnum yrði gert að fara í sýnatöku daglega.
Frá og með 10. janúar verður því sú skylda tekin upp hjá starfsfólki í matvælaiðnaði, flutningum og við landamæragæslu, svo draga megi úr útbreiðslu veirunnar meðal þeirra starfsstétta.
Johnson áréttaði enn að vægari smit fylgdu omíkron-afbrigðinu en þeim fyrri en þó væri brýnt að allir héldu vöku sinni. Eins nefndi hann örvunarbólusetningu sem snaran þátt í hve staðan væri betri en fyrir ári.
Samkvæmt áætlun, sem renna á sitt skeið 28. janúar, er almenningi gert að bera grímur innandyra á tilteknum stöðum og framvísa bólusetningarvottorði sums staðar auk þess sem fólk er hvatt til þess að vinna að heiman.
Heildarfjöldi smita á Bretlandi fór yfir 200 þúsund samkvæmt nýjustu tölum sem birtar voru í dag en þar teljast með tölur tveggja daga frá Wales og fjögurra frá Norður-Írlandi.