Um 200 rúllur í sjóinn í óveðri —„Sáum þær bara hverfa“

05.01.2022 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: Nanna Steina Höskuldsdóttir - RÚV
Bændur á Höfða skammt sunnan við Raufarhöfn misstu um tvö hundruð heyrúllur í sjóinn í miklu óveðri sem gekk yfir austanvert landið í fyrradag. Þeir segja tjónið hlaupa á milljónum.

„Gekk yfir á einhverjum mínútum“

Talsvert tjón varð á bænum Höfða í Norður- Þingeyjarsýslu á mánudag þegar hvassviðri olli því að sjór hrifsaði með sér girðingar, rekavið og stóran hluta af heyjum á bænum. Nanna Steina Höskuldsdóttir, bóndi á Höfða segir hlutina hafa gerst mjög hratt og illa hafi gengið að ráða við aðstæður. „Þetta gekk bara yfir á einhverjum mínútum. Þegar við komum á svæðið þá sáum við bara rúllurnar fara á haf út og það bara veltist plastið af þeim. Við fórum bara strax í það að ná sem mestu sem var næst vatninu, til þess að bjarga því en á meðan á þessu stóð þá sáum við þær bara hverfa,“ segir Nanna. 

Nanna deildi fleiri myndum á Facebook

Mikið fjárhagslegt tjón

Hún segir að auk þeirra tæplega 200 sem fóuri í sjóinn séu margar rúllur skemmdar. „Miðað við okkar talningar hérna í gærkvöldi þá eru þetta 199 rúllur sem eru alveg horfnar og einhverjar fjórtán fimmtán sem að plastið er alveg farið af og eru bara rennblautar og við eigum ekki von á því að geta nýtt þær nokkuð.“

Er þetta þá ekki mikið fjárhagslegt tjón fyrir ykkur?

„Jú þetta hleypur á einhverjum hundruðum eða milljónum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Nanna Steina Höskuldsdóttir - RÚV