Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tékkar herða reglur um skimun

05.01.2022 - 17:27
epa09654971 A health worker takes a sample from an unidentified man in a Covid-19 Walk Thru station in Lisbon downtown where people can take a SARS-CoV-2 antigen test, in Lisbon, 23 December 2021. Portugal, which has one of the world's highest rates of vaccination against COVID-19 with around 87 percent of its ten million population fully inoculated, is facing a surge in infections along with the rest of Europe, in part due to the fast-spreading Omicron variant.  EPA-EFE/MIGUEL A. LOPES
 Mynd: EPA-EFE
Stjórnvöld í Tékklandi ætla að skikka allt fólk á vinnumarkaði til að fara tvisvar í viku í COVID-19 próf meðan omíkron-afbrigði kórónuveirunnar geisar í landinu. Tíminn sem fólk þarf að vera í einangrun eða sóttkví vegna smita verður styttur í fimm daga.

Vlastimil Válek heilbrigðisráðherra kynnti hinar nýju reglur um skimun tvisvar í viku á fundi með fréttamönnum í Prag í dag. Þær taka gildi 17. janúar. Reglurnar eru í samræmi við kvaðir sem eru lagðar á nemendur og starfsfólk skóla sem mættu fyrr í þessari viku eftir jólafrí. Þær gilda í að minnsta kosti þrjár vikur.

Frá og með næsta þriðjudegi þurfa Tékkar ekki að vera nema fimm sólarhringa í einangrun eða sóttkví vegna smita. Til þessa hefur sóttkvíin verið ein vika og einangrunin tvær. Vlastimil Válek sagði að stjórnvöld teldu óhætt að gera þetta þar sem aðrar þjóðir hefðu gripið til sömu ráðstafana til að halda fólki í vinnu.

Fyrir um það bil ári og aftur síðastliðið haust voru kórónuveirusmit í Tékklandi á hverja hundrað þúsund íbúa með því hæsta í heiminum. Þeim fór fækkandi eftir því sem leið á árið en hefur fjölgað að nýju að undanförnu. Af 10,7 milljónum landsmanna hafa yfir tvær og hálf milljón smitast. Dauðsföll af völdum COVID-19 eru yfir 36 þúsund. Búið er að bólusetja rúmlega 62 prósent Tékka að fullu. Það eru töluvert færri en að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV