Flaugin skall í hafið austan Kóreuskaga að því er fram kemur í tilkynningunni en áhafnir skipa á svæðinu voru hvattar til að hafa varann á. Ekki var frekar greint frá smáatriðum varðandi eldflaugaskotið.
Á þeim áratug sem liðinn er frá því Kim Jong-Un komst til valda hafa orðið stórstígar framfarir varðandi tæknibúnað norðurkóreska hersins. Það hefur hins vegar leitt af sér að ríkið sætir þungum alþjóðlegum viðskiptaþvingunum.
Frá því kórónuveirufaraldurinn skall á hefur efnahagsástandið í landinu orðið bágbornara en áður og hafa mannréttindasamtök lýst þungum áhyggjum af því að hungursneyð kunni að vera yfirvofandi.
Kim Jong-Un kvaðst í áramótaávarpi staðráðinn í að treysta hernaðarmátt Norður-Kóreu enn frekar en nefndi Bandaríkin ekki einu orði. Sömuleiðis lagði hann áherslu á fæðuöryggi og framþróun.
Á nýliðnu ári greindu norðurkóresk stjórnvöld frá tilraunum með nýja gerð kafbátaskotflaugar, langdrægar stýriflaugar og hljóðfráa kjarnorkuflaug.
Enn er allt í járnum varðandi samningaviðræður Bandaríkjamanna og Norður-Kóreu en fulltrúar ríkjanna hafa ekki rætt saman frá því að Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseti og Kim hittust árið 2019.
Joe Biden núverandi forseti kveðst reiðubúinn til viðræðna við Norður-Kóreu en setur kjarnorkuafvopnun sem skilyrði. Stjórnvöld í Pyongyang hafna þeim kröfum alfarið.