Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Svíar ákæra konu fyrir stríðsglæpi

04.01.2022 - 17:14
epa06612183 A Turkish-backed Free Syrian Army soldier holds his weapon as they celebrate after reportedly capturing the city of Afrin, northern Syria, 18 March 2018. Turkish President Recep Tayyip Erdogan on 18 March said the Turkish military and allied
Sýrlenskur uppreisnarmaður úr hópi sem nýtur stuðnings Tyrklandsstjórnar fagnar hertöku Afrín-borgar í mars síðastliðnum.  Mynd: EPA
Embætti ríkissaksóknara í Svíþjóð ákærði konu í dag fyrir stríðsglæpi. Hún er talin hafa stuðlað að því að tólf ára sonur hennar gekk til liðs við vígasveitir Íslamska ríkisins og tók þátt í bardögum í Sýrlandi. Hún neitar sök.

Málið er að sögn sænskra fjölmiðla hið fyrsta sinnar tegundar í landinu. Konan sem nú er 49 ára fór frá Svíþjóð til Sýrlands árið 2013, ári áður en hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið lýstu yfir stofnun kalífaríkis í stórum hluta Sýrlands og Íraks. Hún tók fimm börn sín með sér, þar á meðal tólf ára son sinn.

Ákæruvaldið í Svíþjóð sakar konuna um að hafa komið til leiðar að sonurinn fékk herþjálfun hjá vígamönnum í Sýrlandi, þar á meðal Íslamska ríkinu sem sá honum fyrir vopnum og öðrum búnaði. Fullyrt er að drengurinn hafi tekið þátt í bardögum á árunum 2013 til '16. Hann lést árið 2017. Að sögn fjölmiðla féll hann í bardaga.

Konan sneri til Svíþjóðar árið 2020 eftir að vígasveitirnar höfðu verið brotnar á bak aftur. Í yfirlýsingu segir Reena Devgun saksóknari að sannanir liggi fyrir því að drengurinn hafi fengið fræðslu og þjálfun í hernaðaraðgerðum meðan hann bjó enn heima. Fyrir það eigi hún að lágmarki fjögurra ára fangelsi yfir höfði sér.

Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum er bannað að nota börn undir fimmtán ára aldri í hernaði. Alþjóða sakamáladómstóllinn í Haag lítur á það sem stríðsglæp.

Að sögn verjanda konunnar neitar hún sök. Réttarhöld í máli hennar hefjast á mánudaginn kemur, tíunda janúar.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV