Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sóttu slasaðan mann á Þingvelli

04.01.2022 - 22:21
Um 30 björgunarsveitarmenn tóku þátt í að bera slasaðan mann að sjúkrabíl á Þingvöllum að kvöldi 4. janúar 2022.
 Mynd: Landsbjörg
Um 30 björgunarsveitarmenn tóku þátt í að bera slasaðan mann að sjúkrabíl á Þingvöllum í kvöld. Maðurinn slasaðist á fæti eftir fall, en hann var við klifur nálægt Öxará, samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu. Mikil hálka er á Þingvöllum og 15 stiga frost og þurfti talsverðan viðbúnað við að flytja manninn af vettvangi og í sjúkrabíl.

Björgunarsveitum í Árnessýslu barst tilkynning rétt fyrir klukkan 21:00 í kvöld ásamt Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og sjúkraflutningamönnum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Um klukkutíma síðar var maðurinn kominn í sjúkrabíl. Sjúkraflutningamenn komu fyrstir á vettvang og hlúðu að manninum og verkjastilltu. Björgunarsveitafólk kom upp búnaði til að tryggja öryggi viðbragðsaðila þegar bera þurfti manninn af vettvangi. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV