Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Á fjórum biðlistum eftir mjaðmaaðgerð

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Kona sem er innan við fimmtugt og þráir að komast út á vinnumarkaðinn sem fyrst er á fjórum biðlistum eftir mjaðmaaðgerð. Hún hefur beðið í fimmtán mánuði eftir mjaðmaskiptum.

Svefnlausar nætur vegna verkja, óvinnufærni og eilíf bið er veruleiki sem kona innan við fimmtugt, sem beðið hefur í fimmtán mánuði eftir mjaðmaaðgerð, býr við. Hún er nú á fjórum biðlistum.

Helga Rún Viktorsdóttir fór á bæklunarskurðdeild Landspítalans fyrir tæpu einu og hálfu ári, var sett á biðlista  og var sagt að um tíu mánuðir yrðu fram að aðgerð. Þegar biðtíminn var að verða liðinn hafði hún aftur samband en fékk þau svör að óvíst væri hvenær af aðgerð yrði. Að tillögu gigtarlæknis hennar var sótt um að komast til Svíþjóðar. Sjúkratryggingar samþykktu að senda hana og fylgdarmann utan. Ekkert varð af því.

„Ég var ofsalega glöð og spennt og það átti að gerast um mánaðamótin janúar -febrúar.  Um miðjan desember sendir Svíþjóð mér tölvupóst og segir að það verði að fresta öllum svona aðgerðum vegna óvissu vegna covid."

Fyrir tilviljun frétti Helga Rún að mjaðmaaðgerðir væru einnig gerðar á Akureyri og Akranesi. Þegar hún spurði út í það fékk hún fregnir á Landspítala af því að það væru aðrir biðlistar og skráði sig á fleiri lista. 

„ Þannig að þetta er staðan í dag. Ég er á fjórum biðlistum eftir mjaðmaskiptum."

Hefði hún vitað þegar í stað að fleiri staðir á Íslandi kæmu til greina hefði hún frekar kosið aðgerð á Íslandi.    
„Þetta er bara algjör falleinkunn, algjör falleinkunn. Og bara, ég þrái ekkert annað en að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ég er búin að vera í veikindaleyfi síðan núna í haust bara bíð eftir að geta hafið líf mitt að nýju.

Svo er það klíníkin, ég get farið þangað og komist að kannski eftir ...ég veit ekki ég er ekki búin að athuga það. Ég er búin að sjá að mjaðmaliðskipti kosta 1,2 milljónir og þær á ég ekki til því miður."

Ásættanlegur biðtími eftir aðgerð samkvæmt viðmiði Landlæknisembættisins eru 90 dagar. Bíða þarf lengur eftir öllum helstu skurðaðgerðum. Rúm 70 prósent þeirra sem þurfa nýjan gervilið í mjöðm bíða lengur en ásættanlegt er talið og rúm 80 prósent þeirra sem þurfa hnjáaðgerð samkvæmt samantekt landlæknisembættisins.

Helga Rún furðar sig á fyrirkomulaginu. „Bara að laga þetta. Ef þeir eru tilbúnir til að borga fyrir mig og fylgdarmann til að fara til Svíþjóðar þá hljóta þeir að gera borgað fyrir mig í aðgerð hérna heima. Ég veit að það eru lausar skurðstofur en það vantar starfsfólk. Og það þarf að leysa það!"
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir