Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Warner kaupir tónlistararfleifð Davids Bowies

03.01.2022 - 17:33
epa05098489 Bowie fans continue to bring flowers at a tribute mural for late British singer David Bowie in his birthplace Brixton, London, Britain, 12 January 2016. Well-wishers have flocked to the Bowie mural to pay their respects following the announcement of his death. Bowie, 69, has died on 10 January 2016 after a battle with cancer.  EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA
Bandaríska tónlistarforlagið Warner Chappel Music tilkynnti í dag að það hefði keypt réttinn að öllum tónsmíðum breska tónlistarmannsins Davids Bowie. Kaupverðið er ekki gefið upp, en tímaritið Variety áætlar að það sé allt að 250 milljónir dollara, ríflega 32 milljarðar króna.

Í pakkanum eru nokkur hundruð lög sem David Bowie samdi og sendi frá sér á um hálfrar aldar ferli. Þeirra á meðal eru lögin Space Oddity, Life on Mars?, Changes, Heroes, The Jean Genie og Rebel Rebel.

Í yfirlýsingu fagnar Warner Chappel því að dánarbú Bowies hafi valið fyrirtækið til að gæta arfleifðar listamannsins. Hann hafi verið í hópi þeirra áhrifamestu og byltingarkenndustu á tuttugustu öldinni. Lögin hans séu ekki einungis óvenjuleg heldur hafi þau mörg hver markað þáttaskil og breytt stefnu nútímatónlistar til frambúðar.

Með kaupunum hefur Warner Chappel réttinn að höfundarverki Davids Bowies ásamt að eiga útgáfuréttinn að hljóðrituðum lögum hans.

Kaup af þessu tagi hafa færst í aukana á undanförnum árum. Bruce Springsteen seldi Sony til dæmis réttinn að sinni tónlist fyrir nokkru fyrir 500 milljónir dollara eða 65  milljarða króna. Bob Dylan hefur einnig selt sitt safn fyrir hundruð milljóna. Meðal annarra má nefna Paul Simon, Tinu Turner og Neil Young.

David Bowie lést árið 2016, tveimur dögum eftir 69 ára afmælisdaginn sinn. Hann hefði orðið 75 ára á laugardaginn kemur.

Dánarár Davids Bowies hefur verið leiðrétt.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV