Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vitum hvað delta getur gert

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þrátt fyrir hraða útbreiðslu omíkron-afbrigðisins eru enn að greinast jafn mörg smit af delta-afbrigðinu og fyrir tveimur vikum. Í því ljósi segir sóttvarnalæknir brýnt að bólusetja yngri aldurshópa enda leggist delta-afbrigðið þyngra á börn.

Stefnt er að því að hefja bólusetningar barna á aldrinum fimm til ellefu ára í grunnskólum í næstu viku. Þótt flest bendi til að omíkron-afbrigðið valdi vægari einkennum en fyrri afbrigði segir sóttvarnalæknir að enn sé rík ástæða til að bólusetja þennan aldurshóp.

„Við erum enn þá með delta. Við erum enn þá með jafn mikinn fjölda af delta-smitum í samfélaginu eins og við vorum með fyrir tveimur vikum. Það eru á milli 100 og 150 smit á dag og við vitum hvað þau geta gert, það eru tvö börn á barnaspítala Hringsins núna,“ segir Þórólfur.

Alls hafa um tíu börn þurft að leggjast inn á spítala vegna covid, flest með delta-afbrigðið, og jafnvel þótt börn leggist ekki inn á spítala geti þau orðið mjög veik. Ekki fengust nánari upplýsingar um líðan þeirra barna sem nú liggja inni.

Þórólfur bendir á að bólusetning tólf til sextán ára barna hafi gefist mjög vel og virkað jafnvel betur en hjá fullorðnum. Rík ástæða sé til að vernda yngri aldurshópa. „Og í mínum huga er það ekki spurning. Við sjáum erlendis frá, í Bandaríkjunum sérstaklega, þar er ávinningurinn af því að bólusetja börnin margfaldur á við áhættuna að fá covid.“