Stjarnan lyfti sér upp töfluna með sigri á Njarðvík

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stjarnan lyfti sér upp töfluna með sigri á Njarðvík

03.01.2022 - 21:01
Einn leikur var spilaður í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld, Stjarnan og Njarðvík mættust í Garðabæ. Stjarnan byrjaði leikinn af miklum krafti og uppskar að lokum góðan sigur, 97-77.

Fyrir þennan fyrsta leik ársins voru Njarðvíkingar í fjórða sæti deildarinnar en Stjarnan í áttunda sæti. Stjarnan byrjaði leikinn  betur og komst mest 14 stigum yfir í fyrsta leikhluta. Stjörnumenn héldu áfram uppteknum hætti í öðrum leikhluta og þegar í hálfleik var komið voru Garðbæingar 23 stigum yfir, 53-30. Heldur dró saman með liðunum í þriðja leikhluta og sextán stigum munaði eftir hann.

Njarðvíkingum tókst að minnka muninn niður í tíu stig þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum en skoruðu svo ekki meira í leiknum. Á sama tíma fór hvert skotið á fætur öðru ofan í körfuna hjá Stjörnumönnnum sem uppskáru að lokum tuttugu stiga sigur, lokatölur 97-77. Stjarnan lyftir sér þar með upp í fimmta sæti deildarinnar þar sem liðið er með 12 stig, jafn mörg og Tindastóll og Valur sem eiga bæði leik til góða. Robert Turner var stigahæstur Stjörnumanna með 21 stig og 8 fráköst.