Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Nemendur Fossvogsskóla úr einu mygluðu húsi í annað

03.01.2022 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Foreldrum nemenda í Fossvogsskóla barst tilkynning í morgun um að raki hefði mælst í Korpuskóla, þar sem börn þeirra hafa stundað nám vegna mygluskemmda á húsnæði Fossvogsskóla. Beðið er eftir niðurstöðum úr ræktun sýnanna, en þá kemur í ljós hvort mygla sé enn í húsinu. Mygla mældist í Korpuskóla snemma á síðasta ári, en talið var að húsnæðið væri orðið öruggt eftir viðgerðir og þrif.

Verkfræðistofan Efla réðist í viðgerðir á Korpuskóla síðasta vor, eftir að þar greindist myglusveppur. Eftir viðgerðirnar var húsnæðið sagt heilnæmt og gott og nemendur í 5.-7. bekk hafa nú stundað nám sitt þar í hálft skólaár.

„Eins og við deildum með ykkur í tölvupósti fyrir jól þá bárust okkur ábendingar um að það gæti verið tilefni til að kanna nánar gæði innivistar í Korpu“ segir í pósti skólastjórnenda til foreldra. Þau greina frá því að starfsmaður Eflu hafi verið fenginn til mælinga milli jóla og nýárs og hafi greinst mylguskemmdir á nokkrum stöðum. Við heimilisfræðistofu, á einu salerni, í textílstofu og í íþróttasal.

Skólastjórnendur hafa óskað eftir flýtimeðferð við greiningu sýna sem voru send í ræktun. Von sé á þeim niðurstöðum um miðjan janúar. Þeim rýmum þar sem raki mældist verður lokað og er til skoðunar hvernig kennslu verði háttað í þeim fögum.

„Ljóst er að óháð niðurstöðunum verður að ráðast í viðgerðir til að fyrirbyggja rakamyndun og framkvæmdaáætlun er í vinnslu“ segir í póstinum. 

Mikið hefur verið fjallað um málefni Fossvogsskóla, sem og annarra skóla hérlendis, og viðbrögð yfirvalda þegar mygla mælist í skólahúsnæði. Myglu varð fyrst vart í Fossvogsskóla vorið 2019 og hefur borið á mikilli óánægju meðal foreldra, nemenda og starfsfólks yfir seinagangi og úrræðaleysi.