Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Um 35% fleiri nýskráðir bílar 2021 en 2020

02.01.2022 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ríflega tólf þúsund nýjar fólksbifreiðar voru nýskráðar í landinu frá áramótum og til jóla. Samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins sem fyrir lágu á jóladag fjölgaði nýskráningum milli áranna 2020 og 2021 um 35,5%.

Frá þessu er greint á vef FÍB en þeir bílar sem hugsaðir eru til almennrar notkunar eru um 65,5% nýskráðra en bílaleigur keyptu rétt ríflega 35 af hundraði nýrra bíla á árinu. Nýskráningar voru langflestar í maí, júní og júlí en fæstar í febrúar.

Hreinir rafmagnsbílar eru rétt tæp 28% af heildinni en í desember var hlutfall þeirra 48%. Hlutfall keyptra tengiltvinnbíla í desember var 31,6% og hybrid 9,6%. Verð tengiltvinnbíla hækkar nú um áramót þegar virðisaukaskatts-ívilnanir falla niður. 

Samanlagt hlutfall þeirra nýskráðu bíla sem eingöngu ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, bensíni eða dísli var allt árið hið sama og rafmagnsbílanna eða um 28 af hundraði.