Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ísraelsher gerir atlögu að Hamas eftir eldflaugaárás

02.01.2022 - 00:55
epa09661338 Israeli soldiers during clashes with Palestinians following a protest in the city center of the West Bank city of Hebron, 31 December 2021. Clashes erupted after a protest in solidarity with Palestinian prisoners jailed in Israel.  EPA-EFE/ABED AL HASHLAMOUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelsher gerði atlögu að stöðvum Hamas á sunnanverðu Gaza-svæðinu í kvöld. Það var gert í kjölfar þess að eldflaugum var skotið frá svæðinu í átt að Ísrael snemma á nýársdag.

Flaugarnar tvær lentu í Miðjarðarhafinu skammt undan ströndinni við Tel Aviv stærstu borg Ísraels. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir palestínskum heimildamönnum að ísrealskum herþotum væri beint gegn stöðvum al-Qassam-sveitanna, hernaðararms Hamas.

Einnig var greint frá stórskotaliðsárásum á stöðvar í norðurhluta Gaza-svæðisins. Engin tíðindi hafa borist af mannfalli. 

Gaza-svæðið hefur verið í herkví Ísraelsmanna frá því að Hamasliðar náðu völdum árið 2007. Talsvert mannfall varð í röðum Palestínumanna meðan á ellefu daga átökum stóð í maí síðastliðnum. Eins féllu Ísraelsmenn í átökunum.

Hamas lét eldflaugum rigna yfir Ísrael meðan átökunum stóð þar til afar viðkvæmu vopnahléi var komið á. Ófriðarbálið blossaði upp í kjölfar harkalegrar framgöngu ísraelsku lögreglunnar í og við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem.