Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Omíkron setti mark sitt á áramótagleði heimsins

epa09661119 A view of the 9pm fireworks over the Sydney Opera House and Sydney Harbour Bridge during New Year's Eve celebrations in Sydney, New South Wales, Australia, 31 December 2021. Fireworks at 9pm and midnight in Sydney will be displayed against the backdrop of the Sydney Opera House and Sydney Harbour Bridge with crowd numbers expected to be low due to increasing COVID-19 case numbers in the country.  EPA-EFE/DEAN LEWINS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Nýtt ár er gengið í garð en ný bylgja drifin áfram af omíkron-afbrigði kórónuveirunnar setti svip sinn á hátíðahöld víða um heim. Mikið fjölmenni var þó á Skólavörðuholti þegar árið 2021 var kvatt og árið 2022 boðið velkomið.

Líkt og endranær lýstist himinhvolfið yfir höfuðborginni upp af flugeldasýningunni miklu sem íbúarnir sjálfir búa til enda viðraði vel til þess. Fjöldi erlendra ferðamanna var á holtinu enda hafa áramót á Íslandi mikið aðdráttarafl.

Víða um heim þurfti að fresta eða draga mjög úr umfangi hátíðahalda í ljósi þess að omíkron-afbrigðið bráðsmitandi lagðist yfir heimsbyggðina og er víða orðið ráðandi.

Um það bil helmingur þess sem venjulega er safnaðist saman á Puerta del Sol torginu í Madríd. Þar er siðvenja að borða eitt vínber fyrir hvern klukkuslátt á miðnætti.

Yfivöld í Dubai hótuðu að sekta hvern þann sem sæist á grímulaus á almannafæri en þar var boðið upp á stórkostlega flugeldasýningu. Lögreglumenn á Champs-Elysees í París fylgdust grannt með grímunotkun og sektuðu þá sem höfðu uppi mótmæli.

Tiltölulega fámennt var á hafnarsvæðinu í Sydney í Ástralíu sem annars iðar venjulega af lífi um áramót. Það kom þó ekki í veg fyrir að sex tonn af skrauteldum böðuðu Óperuhúsið og svæðið allt litskrúðugum bjarma.

Öllum hátíðahöldum var aflýst á elleftu stundu í Norður-Afríkuríkinu Túnis en öllu fjörugra var í Suður-Afríku. Þar var útgöngubanni að næturlagi aflétt á fimmtudaginn. Heilbrigðisyfirvöld þar í landi eru bjartsýn á að omíkron-bylgjan sé í rénun. 

Á Copacabanaströndinni í Rio de Janero í Brasilíu var meira fjör en í fyrra þegar öllu var aflýst en hátíðahöld voru mun smærri sniðum en þegar 2020 gekk í garð.

Um það bil 15 þúsund, bólusettir og grímuklæddir, máttu heimsækja Times-torgið í New York borg til að fylgjast með þegar glerkúlan fellur til marks um upphaf nýs árs. Það er um fjórðungur þess sem venjulega er viðstaddur en það er draumur margra að vera á torginu um áramót.