Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Minnst tólf pílagrímar fórust í Kasmír á Indlandi

01.01.2022 - 08:17
Erlent · Asía · Banaslys · Indland · Kasmír
epa09661226 Indian tourists visit the snow covered Kongdoori tourist resort in Gulmarg, north of Kashmir, some 60km from Srinagar, the summer capital of Indian Kashmir, 31 December 2021.  EPA-EFE/FAROOQ KHAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Að minnsta kosti tólf fórust og þrettán slösuðust í miklum troðningi nærri helgidómi í Kasmír-héraði á Indlandi í gærkvöld. Þúsundir pílagríma voru á leið að Vaishno Devi einhverjum helgasta dómi Hindúa í landinu þegar atvikið átti sér stað.

Vegurinn að helgistaðnum er um 15 kílómetrar að lengd, á brattann að sækja og aðeins fært fótgangandi eða ríðandi. Þyrluþjónusta er þó í boði.

AFP-fréttaveitan hefur eftir sjónarvotti að atvikið hafi orðið þar fólk á niðurleið mætti fólki á uppleið,mjög dimmt hafi verið, fólk hafi fallið hvert um annað og margir troðist undir.

Hann segist hafa fundið og fært til átta lík áður en sjúkralið bar að og kveðst vera feginn að hafa lifað atvikið af.

Ekki hefur verið staðfest hvað olli því að fólkið tróðst undir en haft er eftir embættismanni að það hafi ætlað sér að komast að til að fara með sérstakar nýársbænir.

Slasað fólk var flutt í hraði á sjúkrahús margt mjög illa haldið að því er AFP-fréttaveitan greinir frá.