Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gríðarmiklir gróðureldar geisa í Colorado-ríki

31.12.2021 - 02:07
epa09660974 Smoke rising from grass fires near Boulder, Colorado shroud the sun as seen from 119th Street in Lafayette, Colorado, USA, 30 December 2021. Officials have ordered the evacuation of two towns ahead of the fires reportedly started by downed power lines in extremely strong winds.  EPA-EFE/RAY STUBBLEBINE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Víðfeðmir gróðureldar geisa nú í Colorado í Bandaríkjunum og óttast er að fólk hafi farist. Þegar hafa hundruð húsa, hótel og verslanamiðstöðvar orðið eldinum að bráð. Þúsundir eru á flótta undan eldhafinu en veðurfræðingur segir óvanalegt að gróðureldar kvikni þar um slóðir á þessum árstíma.

Miklir þurrkar hafa ríkt á svæðinu um langa hríð. Joe Pelle, lögreglustjóri í Boulder-sýslu, sagði umfang eldanna og ákefð það verulega á þéttbýlu svæði að hann óttaðist um afdrif íbúanna.

Þúsundir hafa flúið undan eldhafinu sem breiðist hratt út enda er ofsaveður á svæðinu. Talið er að sterkar vindhviður hafi fellt rafmagnsmöstur með þeim afleiðingum að eldur kviknaði. Hvassviðrið gerir slökkviliðsmönnum á jörðu niðri erfitt fyrir og ómögulegt er að koma flugvélum á loft. 

Daniel Swain, veðurfræðingur við Kaliforníuháskóla, segir ótrúlegt að hugsa til þess eldar geisi á þessu svæði í desember. Það sé afar fátítt en hann segir haustið hafa verið óvenjuhlýtt og snjólétt. Þegar við bætist gríðarlega hvass vindur geti gróðureldar kviknað. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV