Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Búa sig undir leit að týndum dýrum á nýársnótt

30.12.2021 - 09:12
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sjálfboðaliðar samtakanna Dýrfinnu, búa sig undir langar nætur næstu daga á meðan landsmenn sprengja flugelda til þess að fagna nýju ári. Samtökin leita að týndum gæludýrum og segir Sandra Ósk Jóhannsdóttir, einn sjálfboðaliðanna, þau sjaldan hafa eins mikið að gera og um hátíðarnar. Þau leita oftast að týndum hundum, en einnig komi fyrir þau leiti að köttum sem talið sé að gætu verið í hættu.

Eðlileg viðbrögð að hræðast sprengingar og púðurlykt

„Það eru auðvitað bara náttúruleg viðbrögð að fælast þegar þú skilur ekki afhverju er svona mikill hávaði eða púðurlykt. Mjög eðlilegt að vilja fara í burtu“ sagði Sandra í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þá benti hún á að sérstaklega hundar séu með margfalt næmara þefskyn og púðurlyktin á gamlárskvöld sé vitanlega engu lík. En samtökin leita oftast af hundum sem týnast á þessum árstíma.

Margir hundaeigendur hafa reynt að spila flugeldahljóð heima fyrir til þess að venja hundana við hávaðann. Sandra segir það alltaf jákvætt að umhverfisvenja hunda, en það sé ómögulegt að skapa aðstæður á gamlárskvöld í þéttbýli, á öðrum árstímum. Því virki slíkt ekki fyrir marga hunda sem séu mjög hræddir þrátt fyrir góða umhverfisþjálfun.

Hálsólar með ljósum eða GPS-tækjum auðvelda leit

Spurð hvað eigendur geti gert til þess að auka öryggi gæludýra sinni á þessum árstíma, segir Sandra tvennt hafa staðið upp úr sem auðveldi þeim leit að týndum hundum. Annarsvegar séu það hálsólar með LED-ljósum og hins vegar GPS-tæki, sem einnig eru fest á ólar dýranna.

„Það var einn hundur í fyrradag sem fældist vegna flugelda og hann var með svona LED-tæki, þannig ég náði að finna hann á núll einni“ segir Sandra. „Það er bara svo gríðarlega mikilvægt að hundurinn sé sýnilegur í myrkrinu. Bæði fyrir eigendur og sjálfboðaliða sem eru að leita í myrkrinu en líka fyrir umferð“.

Grillaði pylsur úti í skógi á nýársnótt til að lokka til sín týndan hvolp

Sandra segist auðvitað vona engin dýr týnist nú um áramót, en hún geri fastlega ráð fyrir því að eyða næstu sólarhringum í skipulagningu leitar. „Ég var síðustu nýársnótt klukkan fimm um morguninn að grilla pylsur í einhverjum skógi, þannig það getur vel verið ég verði úti aftur“.

Dýrfinna heldur utan um skipulag leitar týndra dýra á Facebook og er fjöldi fólks sem leitar orðið liðsinnis frá þeim. „Við fylgjumst markviss með Facebook, við erum á öllum hverfissíðum og öllum síðum um týnd dýr. Við erum alltaf, allan sólarhringinn að vakta Facebook, þar fáum við helstu upplýsingarnar“ segir Sandra.