
Ný flugstöð verður byggð
Kostnaður upp á 810 milljónir
Í júní var tekin fyrsta skóflustungan að nýrri 1100 fermetra nýbyggingu við núverandi flugstöð á Akureyri. Skóflustungan átti að marka upphaf tveggja ára framkvæmdatíma á Akureyrarflugvelli. Framkvæmdin var í kjölfarið boðin út en erfiðlega gekk að fá ásættanlegt tilboð. Nú þykir það hafa náðst og var skrifað undir samning í dag á milli Isavia innanlandsflugvalla og Byggingarfélagsins Hyrnu. Tilboðið hljóðar upp á rúmar 810 milljónir króna.
„Verður tilbúin þegar ferðamennskan fer á fullt“
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, segir daginn mikinn gleðidag. „Þetta er mjög merkilegur dagur í dag að það sé komið að þessu. Þetta breytir aðgengi ferðamanna að Íslandi að geta opnað nýja gátt inn til landsins og geta í rauninni afgreitt millilandavélar og innanlandsflugið á sómasamlegan hátt hér á Akureyri.
Sigrún segir framkvæmdir hafa tafist vegna þess að það þurfti að endurtaka útboðið. „Þessu seinkar aðeins, við tökum þetta í notkun sumarið 2023 í rauninni eftir ca. 18-19 mánuði og ég held að það sé í takti við þegar ferðamennskan fer á fullt aftur að þá verður þessi bygging tilbúin.“