Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Krefst fangelsis yfir lögreglumönnum sem bönuðu stúlku

A woman wipes her eye as police officers investigate the scene where two people were struck by gunfire in a shooting at a Burlington store as part of a chain formerly known as Burlington Coat Factory in North Hollywood, Calif., Thursday, Dec. 23, 2021. (AP Photo/Ringo H.W. Chiu)
 Mynd: AP
Faðir fjórtán ára stúlku sem lögreglumenn skutu til bana þegar þeir voru að eltast við grunaðan ofbeldismann í verslun í Los Angeles í Bandaríkjunum krefst þess að þeir verði dæmdir í fangavist fyrir verknaðinn.

Faðirinn, Juan Pablo Orellana, segist ekki gefast ekki upp fyrr en lögreglumennirnir verða komnir á bak við lás og slá. Hann og Soledad, móðir stúlkunnar, Valentinu, ræddu við fréttamenn í gær ásamt lögmanninum Benjamin Crump sem meðal annars starfaði fyrir fjölskyldu Georges Floyd.

Lögreglumennirnir skutu á karlmann eftir tilkynningu um að hann hefði ráðist á konu í stórverslunni Burlington í Norður-Hollywood með lífshættulegu vopni. Í tilkynningunni kom fram grunur um að maðurinn bæri skotvopn en vopnið hefur ekki fundist.

Orellana kallaði lögreglumennina glæpamenn í samtali við fréttamenn og sagðist eingöngu krefjast réttlætis fyrir dóttur sína. Atvikið átti sér stað á fimmtudaginn var.

Myndbandsupptökur sýna lögreglumennina fara um verslunina með skotvopn á lofti og einn þeirra hleypa af skotum um leið og hann kom auga á hinn grunaða. Ein þeirra fór í gegnum vegg á mátunarklefa þar sem Valentina og móðir hennar voru. 

Sá grunaði féll líka í skothríðinni en móðir Valentinu segir að þær hafi setið dauðskelfdar í faðmlögum inni í klefanum þegar eitthvað skall á stúlkunni og þær féllu báðar í gólfið.

Valentina lést af sárum sínum í fangi móður sinnar. Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt mjög hve fljótt lögreglumennirnir gripu til vopna inni í verslun þar sem erfitt væri að meta aðstæður. 

Michael Moore, lögreglustjóri í Los Angeles, heitir því að andlát Valentinu verði rannsakað ítarlega. Í samantekt sem Washington Post gerði kemur fram að um 900 manns hafi látist af skotum lögreglumanna í Bandaríkjunum það sem af er ári.

Engar opinberar skýrslur eru gefnar út um slík atvik og hverju umdæmi í sjálfs vald sett hvort það greinir frá þeim. Lögregluyfirvöld bregðast við ámæli fyrir þetta með vísan til þess að lögreglumenn lendi iðulega í lífshættulegum aðstæðum vegna þess hve skotvopn séu algeng í landinu.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV