Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fallegu áramótaveðri spáð

29.12.2021 - 12:18
Mynd: RÚV - Kristján Þór Ingvarsso / RÚV
Spáð er fallegu áramótaveðri með nægri gjólu víðast hvar til að blása burtu svifryki frá flugeldum, ef frá er talinn Eyjafjörður. Veðurblíðan hverfur hins vegar skyndilega á nýársnótt og Veðurstofan ræður fólki frá því að ferðast milli landshluta. Viðbúið er að sett verði gul eða appelsínugul viðvörun fyrir veðrið á nýársdag, segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur. 

„Það er bara nokkuð góð spá fyrir gamlársdag. Það er austlæg átt, frekar hæg, víða bjart veður en svolítið hvasst með suðurströndinni og einhver smá él með suður- og austurströndinni. En annars bara eiginlega úrkomulaust og víða bara nokkuð bjart og fallegt veður,“ segir Þorsteinn.

Heldurðu að það sé líklegt að veðrið hérna á höfuðborgarsvæðinu verði þannig að hér myndist mikill mökkur og flugeldarnir sjáist ekki?

„Ég held ekki. Ég held að það verði næg austanáttin til þess að feykja menguninni á haf út. En það er frekar leiðinleg veðurspá fyrir nýársdag. Það er vaxandi norðaustanátt, stormur, snjókoma og skafrenningur víða þegar líður á daginn og ekkert ferðaveður. Þeir sem hyggjast ferðast milli landshluta: Það væri betra að fresta því fram á sunnudag. Þá er spáin betri,“ segir Þorsteinn.

Finnst þér líklegt að það verði sett gul viðvörun fyrir nýársdag?

„Já, gul eða jafnvel appelsínugul. Það á eftir að koma í ljós,“ segir Þorsteinn.

Þannig að þú ræður fólki um allt land frá því að fara milli landshluta á nýársdag?

„Já, á nýársdag. Ef hægt er að fresta ferðalögum, þá er betra að bíða til sunnudags,“ segir Þorsteinn.